þriðjudagur, 17. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ungur knapi í viðtali: „Best þegar ég og hesturinn erum eitt“

22. október 2011 kl. 12:25

Ungur knapi í viðtali: „Best þegar ég og hesturinn erum eitt“

Ólafur Göran Ólafsson Gros er 14 ára hestamaður frá Akureyri. Á Uppskeruhátíð æskulýðsnefndar Léttis á dögunum var hann valinn knapi ársins í unglingaflokki en þann titil hlaut hann einnig sl. tvö ár í barnaflokki. Hann hefur stundað hestamennsku með fjölskyldu sinni síðan á unga aldri og tekið þátt í mótum síðan hann var 5 ára, þótt hann hafi misskilið tilgang þeirra fyrst um sinn. Góð samvinna og skilningur er grundvöllur árangurs í hestamennsku að hans mati. Eftirlætis hans er rauða merin Fjöður frá Kommu, sem hann segir sæta, kelna og viljuga. Hann hefði verið til í að taka töltmeistarann Ölfu frá Blesastöðum 1A með sér heim af Landsmóti. Hann á franska fyrirmynd og hefur sofnað á hestbaki. Svo æfir Ólafur líka skíði og er í leiklist. Og auðvitað hefur hann dottið hressilega af baki.

Eiðfaxi fékk að yfirheyra þennan stórskemmtilega hestamann.

-Hvenær kviknaði áhugi þinn á hestum? Hvernig byrjaðir þú í hestum?
Ég er ekki viss hefur, ég hef alltaf fylgt pabba og mömmu Ég fékk að ríða út án teymingar 4 ára. Einu sinni sofnaði ég á baki en pabbi greip mig áður en ég datt.
Svo man ég eftir að vera í hestaferð á stað sem heitir Sörlastaðir í Fnjóskadal. Ég var 5 ára og datt af baki og stóð á höfuðinu milli þúfna. Það sama kvöld hljóp ég um allt og  sagði öllum frá  því að ég væri loksins orðin knapi - því ég var búinn að detta af baki.

-Hvað finnst þér skemmtilegast við hestamennskuna?
Að vera í útreiðartúr í skóginum og fá þessa skrítnu tilfinningu sem ég kann ekki að útskýra; að finna að ég og hesturinn erum eitt, njóta  lífsins og láta hugann reika. Mér finnst gaman að ríða út og finna fyrir kraftinum í hestinum en um leið fyrir góðri samvinnu, hesturinn er þá undir stjórn en ég með tauminn slakann. Svo finnst mér gaman að keppa.

-Hvað er svona frábært við hesta?
Þau eru lifandi dýr sem hafa tilfinningar, ekki eins og „crossarar“ - dauðir hlutir.

-Hvenær kepptir þú í fyrsta sinn?
Þegar ég var fimm ára keppti í tölti með Þóru Höskuldsdóttur. Mér fannst ég sigra, því ég tók fram úr henni og var á undan í „mark“ - var fyrst ekki alveg að fatta um hvað þetta snýst.

-Afhverju er gaman að keppa?
Það er svo skemmtilegt að vera inn á vellinum og finna fyrir góðri samvinnu og vona að fólk taki eftir því. Svo er gaman að hitta vini sína á mótum og vera með fjölskyldunni. En það er auðvitað toppurinn ef maður kemst í úrslit. 

- Áttu þér eftirlætis hest?
Já, það er hún Fjöður vinkona mín, því við erum búin að vinna svo vel saman. Hún er yndisleg. Ég á hana og er þakklátur fyrir það, ég fékk hana í fermingargjöf í vor en fjölskyldan eignaðist hana árið 2005. Mamma keppti á henni fyrst en svo fékk ég að taka við henni árið 2009. Hún er kelin og sæt, skilur mig, er áhugasöm og reynir alltaf að gera rétt. Hún er viljug en getur verið lítil í sér. Ég hef þjálfað hana sjálfur síðan sl. vetur. Pabba fannst þetta hross vera fullkomið fyrir mig. Núna ríð ég út á henni og pabbi segir mér að ef ég vilji hafa hana góða þá þurfi ég að hugsa vel um hana. Ég hef gert það og mun gera það áfram. Ég keppti á henni á síðasta Landsmóti og ætla að reyna að komast aftur á næsta Landsmót. Ég mun keppa á henni eins lengi og ég get.

-  Áttu þér fyrirmynd í hestamennskunni?
Það er einn Frakki sem ég man ekki nafnið á. Hann sýnir og ríður hestunum sínum lausum. Hann þarf bara að tala við hestarna og þeir hlýða honum og leita eftir athygli hans.

-Pælir þú eitthvað í hrossarækt?
Ég pæli ekki mikið í því en mamma og pabbi eru að rækta og eru núna að bíða eftir folaldi undan Fróða frá  Staðartungu

- Nú varst þú valin knapi ársins í Unglingaflokki á Uppskeruhátíð Léttis um daginn, og vannst sama titil í barnaflokki í fyrra og hitteðfyrra. Mér skilst að verðlaunin hljóti sá knapi sem stendur sig oft og vel á keppnisbrautinni.  Hverju þakkar þú svona góðan árangur á keppnisvellinum?
Hestunum mínum, góðri þjálfun, sjálfum mér, foreldrum mínum og öllum öðrum sem hafa hjálpað mér, t.d. reiðkennurum minum Linu Eriksson og  Ásdísi Helgu. Birgir Árnason sem hjálpaði mér fyrir Íslandsmót barna í fyrra, þar komst ég í B-úrslit bæði í fjórgangi og tölti.  En þetta snýst fyrst og fremst um góða samvinnu við hestinn og að vera vel undirbúinn og einbeittur á mótum.

Nokkar hraðaspurningar í lokinn:

- Hvaða hest hefðir þú viljað taka heim með þér af síðasta Landsmóti?
Ölfu frá Blesastöðum 1A,  hún er flott hryssa.

- Flottasti töltari sem þú hefur séð:
Alfa

- Flottasti klárhesturinn er:
Kjarnorka frá Kálfholti

- Flottasti alhliðahesturinn er:
Fróði frá Staðartungu

- Besti hestur sem þú hefur setið:
Fjöður og Prins, bæði frá Kommu.

Eiðfaxi þakkar Ólafi kærlega fyrir viðtalið og óskar honum góðs gengis á komandi vetri.