fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ungir og upprennandi knapar árið 1984

16. október 2014 kl. 12:35

Frá vinstri: Róbert og Lyftingur, Steindór og Ör, Jóhannes og Glæsir, Ingólfur og Hvinur og Haraldur og Smári. Mynd/Sigurður Sigmundsson

Mynd sem var tekin á Suðurlandsmóti í hestaíþróttum vekur áhuga.

Með hjálp lesenda Eiðfaxa fannst mynd sem við birtum á vefnum í fyrradag í 7. tölublaði frá 1984. Þar er fjallað um opna Suðurlandsmótið í hestaíþróttum.

Guðmundur Jónsson segir frá: „Mjög auðvelt var fyrir áhorfendur að fylgjast með röð 10 efstu keppenda í hverri grein því tölva var notuð við útreikninga og birtist árangur hvers keppenda jafn harðan ásamt röð 10 efstu. Gátu áhorfendur bæði séð það á tölvuskermi í tjaldi á áhorfendasvæðinu en einnig voru þeir lesnir upp fyrir þá sem sátu í bílum sínum og horfðu á keppnina þaðan.“

Segir þar einnig frá harðri keppni í unglingaflokki þó nokkur aldursmunur væri á keppendum því allir kepptu í einu flokki. Sömu keppendur voru í öllum úrslitunum nema í fimmgangi, þar vantaði þann yngsta, Ingólf Þorvaldsson 11 ára, sem náði 2. sæti í tölti og 3. sæti í fjórgangi á Hvini frá Hvassafelli... „...og var unun að sjá ásetu hins unga knapa, slaka og yfirvegaða, þó hesturinn væri honum nokkuð erfiður á köflum.“

Aðrir knapar voru ekki á síðri hestum og unglingarnir vel ríðandi skv. grein Guðmundar.

Myndin sýnir fimm efstu knapa í töltkeppni unglinga. Sigurvegari þar var Haraldur Snorrason á Smára frá Sunnuhvoli, sem hér sést lengst til hægri. Hann var jafnframt sigurvegari fjórgangs á mótinu og stigahæstur unglinga. Annar var fyrrnefndur Ingólfur og Hvinur sem hlutu silfur. Í miðjunni er bronsverðlaunahafinn Jóhannes Þór Hauksson, sem sigraði fimmgang unglinga á mótinu. Hesturinn er Glæsir og var í eigu móður Jóhannesar, Katrínar Stefánsdóttur. Hestinn fengu þau frá Ragnari Tómassyni og var undan hesti er Fengur nefndist. Fjórði, á skjóttum hesti er Steindór Guðmundsson á Ör frá Haugi. Lengst til vinstri er svo Róbert Jónsson, annálaður kappreiðaknapi, á hestinum Lyftingi.

Tugir ábendinga bárust okkar í gegnum tölvupóst og fésbók. Eiðfaxi þakkar kærlega fyrir allar innsendar upplýsingar. Þær koma að góðum notum við skrásetningu á þeim ómetanlegu verðmætum sem ljósmyndarinn Sigurður Sigmundsson skildi eftir sig. Fleiri slíkar myndir munu birtast á næstunni.