laugardagur, 23. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Undirbúningur fyrir skeiðkappreiðar

15. apríl 2015 kl. 10:35

Sigurbjörn fræðir knapa á Skeiðdegi Skeiðfélagsins.

Laugardaginn 2. maí næstkomandi mun Skeiðfélagið í samstarfi við Sigurbjörn Bárðarson halda skeiðdag á Brávöllum á Selfossi – með það markmið að undirbúa knapa sem ætla sér að taka þátt í skeiðkappreiðum sumarsins. Er þetta einstakt tækifæri fyrir alla hina að teyga af óþrjótandi viskubrunni Sigurbjörns og fá aðstoð við ýmis atriði og vandamál sem kunna að verða á vegi hins almenna skeiðknapa. Viðburðurinn verður tvískiptur.

Fyrri hluti námskeiðsins verður í fyrirlestrarformi og hefst að morgni dags kl. 09:00 og stendur til 11:30. Þar mun Sigurbjörn fara yfir undirstöðu- og áhersluatriði sem hann telur almennt mestu skipta þegar kemur að skeiðkappreiðum.

Seinni hluti námskeiðsins er verklegur hluti sem hefst eftir hádegi þann sama dag frá kl. 13.00 til 17.00. Þá leiða þátttakendur fram hesta sína í bás og fá sérsniðna leiðsögn frá Sigurbirni er lýtur að þeirra þörfum og hesti eftir atvikum. Þessi hluti námskeiðsins verður auk þess að hluta í hópvinnusniði þar sem aðrir þátttakendur geta fylgst með og lært af.

Ekki þarf að fjölyrða um reynslu og þekkingu Sigurbjörns á sviði skeiðkappreiða – enda hefur afrekasaga hans á kappreiðabrautinni í hartnær hálfa öld engan látið ósnortinn.

Einungis tólf pláss eru í boði á fullt námskeið – fyrstur kemur og fær!

Skráning er nú hafin á netfanginu skeiðfelagid@gmail.com

Skráningargjald 12000 kr. fyrir fullt námskeið. Nánara fyrirkomulag verður kynnt þátttakendum þess þegar nær dregur. Fyrirlesturinn er opinn og kostar 1500 kr. inn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skeiðfélaginu.