miðvikudagur, 21. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Undir hvern fóru þær?

30. desember 2014 kl. 10:00

Jónína frá Feti, knapi Erlingur Erlingsson.

Enn halda pælingarnar áfram.

Ræktendur og ræktunaráhugamenn fylgjast oft vel með vali ræktenda á stóðhestum fyrir góðar hryssur, enda eru úr aragrúa góðra gæðinga að velja. Eiðfaxi fór á stúfanna og kannaði hvaða stóðhestur varð fyrir valinu fyrir hátt dæmdar og verðlaunaðar hryssur.

Jónínu frá Feti þarf vart að kynna en Jónína fór strax í góðan dóm fjögurra vetra og er í dag hæst dæmda klárhryssa í heiminum með 8.59 í aðaleinkunn. Fyrsta afkvæmi hennar fór í fyrstu verðalun í sumar, fjögurra vetra, Nína frá Feti. Jónínu var haldið undir Arion frá Eystra-Fróðholti en hann er hæst dæmdi hestur ársins og annar hæst dæmdi hestur heims. Það eru ekki einu afrek hans því hann hefur hlotið bæði 10 fyrir hægt tölt og tölt í sama dómnum. Afkvæmi Jónínu og Arions er með 119 í kynbótamati samkvæmt valpörun WorldFengs. Efst er það fyrir fegurð í reið (124,5), vilja og geðslag (121) og tölt (119,5).


Jónína frá Feti Mynd: WorldFengur

Kantata frá Hofi er móðir heimsmetshafans Konserts frá Hofi. Konsert er fyrsta afkvæmi Köntötu til að fara í dóm og ekki slæm byrjun á þeim bænum. Kantata sjálf er með góð fyrstu verðlaun og er undan Kormáki frá Flugumýri og Vörpu frá Hofi. Köntötu var haldið undir Spuna frá Vesturkoti í sumar en afkvæmi þeirra verður með 126,5 í BLUPi efst er það fyrir fegurð í reið (124), vilja og geðslag (123,5) og tölt (119,5). 


Kantata frá Hofi. Mynd: WorldFengur

 

Heiðursverðlauna hryssan Nóta frá Stóra-Ási fór undir Eld frá Torfunesi í sumar. Nóta hefur gefið fimm fyrstu verðlauna afkvæmi og þar ber hæst að nefna Trymbill frá Stóra-Ási sem var annar í A flokki gæðinga í sumar á LM. Eldur vakti strax athygli fjögurra vetra en hann fór strax í góðan hæfileikadóm. Eldur er jafn alhliða gæðingur sem eflaust á eftir að gera það gott í framtíðinni. Afkvæmi þeirra yrði með 121 í kynbótamati, efst fyrir fegurð í reið (114,5), vilja og geðslag (115,5) og skeið (115,5).

 

Landsmótssigurvegarinn María frá Feti var haldið undir Spuna frá Vesturkoti í sumar. María er Orradóttir og sigraði 6 vetra flokk hryssa á LM2011. Þetta verður fjórða folald Maríu en hún á fyrir þrjár merar undan Tón frá Melkoti, Stála frá Kjarri og Krák frá Blesastöðum.  Afkvæmi Maríu og Spuna er með 129,5 í BLUPi. Hæst hlýtur það fyrir vilja og geðslag (126), fegurð í reið (122,5), skeið (122,5) og tölt (120).