þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Undir hvaða stóðhest fóru þær?

20. september 2019 kl. 08:00

Dögg frá Breiðholti. Mynd:WorldFengur

Heiðursverðlaunahryssur ársins 2018 teknar fyrir

 

 

Á síðasta ári fengu alls fimm hryssur heiðursverðlaun fyrir afkvæmi. Þetta er einn æðsti heiður hvers ræktanda, og það vita allir þeir sem í ræktun standa, að hryssur eru undirstöðuatriði þess að vel takist til við þá iðju. Til þess að hljóta verðlaun þarf hryssan að eiga að lágmarki fimm dæmd afkvæmi og vera með 116 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins. Eftirtaldar hryssur hlutu þessi verðlaun í fyrra.

Djörfung frá Ketilsstöðum stóð efst þeirra með 123 stig í kynbótamatinu. Hún er undan Álfasteini frá Selfossi og Framkvæmd frá Ketilsstöðum. Framkvæmd hlaut á sínum tíma einnig heiðursverðlaun sem og móðir hennar Hugmynd frá Ketilsstöðum. Djörfung fór undir Hrannar frá Flugumýri í sumar.

Dögg frá Breiðholti í Garðabæ varð næst efst á eftir Djörfungu, en hún var með 121 stig í kynbótamatinu og sex sýnd afkvæmi. Dögg er undan Orra frá Þúfu og Hrund frá Torfunesi. Hrund hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2016. Dögg fór undir Skýr frá Skálakoti í sumar.

Arndís frá feti varð þriðja í röðinni með 117 stig í kynbótamatinu og fimm dæmd afkvæmi. Arndís er undan Orra frá Þúfu og heiðursverðlaunahryssunni Vigdísi frá Feti. Arndís var leidd undir Þráinn frá Flagbjarnarholti í sumar.

Eva frá Hvolsvelli hlaut í fyrra 117 stig í kynbótamatinu en var örlítið lægri en Arndís á aukastöfum. Eva á fimm sýnd afkvæmi í fullnaðardómi. Eva er undan Ögra frá Hvolsvelli og Björk frá Hvolsvelli. Evu var haldið undir Pensil frá Hvolsvelli.

Elding frá Lambanesi hlaut heiðursverðlaun í fyrra þá með 116 stig í kynbótamatinu og átta dæmd afkvæmi. Elding er undan Gimsteini frá Bergsstöðum og Sveiflu frá Lambanesi. Elding hélt ekki í sumar en það var reynt að halda henni undir ýmsa hesta. Elding er orðinn 25 vetra en hefur reynst frjósöm fram að þessu.