þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Undir hvað var þeim haldið?

24. september 2019 kl. 09:02

Dagfari frá Sauðárkróki er undan Hvíta-Sunnu frá Sauðárkróki

Áfram höldum við að velta því fyrir okkur undir hvaða stóðhesta ræktendur héldu hryssum sínum í sumar. í þessari yfirferð tökum við fyrir heiðursverðlaunahryssur ársins 2017

 


Efsta hryssan árið 2017 var Hvíta-Sunna frá Sauðárkróki og hlaut hún því Glettubikarinn. Hlaut hún þá 118 stig í kynbótamatinu og var með sex dæmd afkvæmi. Hvíta-Sunnu muna margir eftir en hún stóð efst í elsta-flokki hryssa á Landsmóti 2006 á Vindheimamelum. Hvíta-Sunna er undan Spegli frá Sauðárkróki og Vöku frá Sauðárkróki. Ræktandi er Sveinn Guðmundsson yngri en eigandi Sauðárkróks-Hestar. Hvíta-Sunna er með staðfest fyl við Blund frá Þúfum. Blundur er hátt dæmdur klárhestur undan Vita frá Kagaðarhóli og Lygnu frá Stangarholti.

Dóra frá Hlemmiskeiði 3 varð önnur á eftir Hvíta-Sunnu. Hlaut hún þá 117 stig í kynbótamatinu með fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi hennar og eigandi er Inga Birna Ingólfsdóttir. Dóra er undan Gusti frá Hóli og Dröfn frá Nautaflötum. Dóra fór í sinni hæsta dóm árið 2006 á Landsmóti á Vindheimamelum.  Dóra fór undir Stanley frá Hlemmiskeiði sem er undan Stála frá Kjarri og Ronju frá Hlemmiskeiði 3.

Gunnvör frá Miðsitju varð þriðja í röðinni en hún var lægri á aukastöfum en Dóra en átti þá 6 dæmd afkvæmi. Ræktandi er Jóhann Þorsteinsson en eigandi er Kári Stefánsson. Gunnvör er undan Spuna frá Miðsitju og Drottningu frá Sólheimum. Gunnvör hlaut sinn hæsta dóm árið 2002 og hlaut þá 8,35 í aðaleinkunn. Gunnvör var leidd undir Ljúf frá Torfunesi í sumar. Ljúfur hlaut 10 fyrir tölt í kynbótadómi í vor en hann er keppnishestur Árna Björns Pálssonar.

Kolbrá frá Varmalæk hlaut einnig 117 stig í kynbótamatinu með átta dæmd afkvæmi. Ræktandi og eigandi er Björn Sveinsson. Kolbrá er undan Kormáki frá Flugumýri II og Kolbrúnu frá Sauðárkróki. Kolbrá hlaut sinn hæsta dóm árið 2003. Kolbrá var haldið undir Síríus frá Tunguhálsi II. Síríus er þriggja vetra gamall stóðhestur undan Skýr frá Skálakoti og Tign frá Tunguhálsi II.

Andvör frá Breiðumörk 2 varð í fimmta sæti með 116 stig í kynbótamatinu og fimm dæmd afkvæmi. Ræktandi hennar er Sigurður J Stefánsson en eigendur eru Stefán Sveinsson og Daníela Barbara Gscheidel. Öll hennar afkvæmi eru því frá Útnyrðingsstöðum. Andvör er undan Andvara frá Ey I og Hettu frá Breiðumörk 2. Andvör fór í ár undir Skagann frá Skipaskaga.