sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umfjöllun um KS deildina

27. febrúar 2014 kl. 11:55

Ísólfur Líndal Þórisson og Kristófer frá Hjaltastaðahvammi Mynd: Sigurlína Erla Magnúsdóttir

"Margar góðar sýningar sáust"

Fyrsta mót KS-deildarinnar fór fram í gærkvöldi í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki þar sem keppt var í fjórgang. Hér fyrir neðan kemur umfjöllun Svölu Guðmundsdóttur um mótið

"Áður en formleg dagskrá hófst skrifuðu fulltrúar Kaupfélags Skagfirðinga og Meistaradeildar- Norðurlands undir samstarfssamning. Keppnin var sett með formlegum hætti þegar lið deildarinnar voru kölluð inná gólf til kynningar.

Kynnir kvöldsins var Jón Kristófer Sigmarsson og komst hann mjög vel frá sínu hlutverki. Umgjörðin í Svaðastaðahöllinni var flott og eftirvænting mikil hjá knöpum og áhorfendum.

Bjarni Jónasson var fyrstur í braut og gaf tóninn með góðri sýningu á Roða frá Garði sem skilaði þeim beint í A-úrslit.

Margar góðar sýningar sáust og smávægileg mistök kostuðu menn úrslitasæti þar sem keppnin var mjög jöfn. 

Þekktir hestar unnu sér strax sæti í A-úrslitum en keppni í B-úrslitum var æsi spennandi þar sem Líney og Mette börðust um efsta sætið. Það fór svo að Líney hafði betur á Bragasyninum Völsungi frá Húsavík, hágengur og fasmikill hestur. 

Trymbill undir stjórn Mettu undirstrikaði gæðingskosti sína og vakti mikla hrifningu áhorfenda. 

A-úrslitin voru sterk þar sem frábærir knapar með sterka hesta lögðu allt undir. 

Ísólfur reið Kristófer af öryggi og fór svo að lokum að þeir höfðu sigur, sterkt fjórgangspar í fremstu röð. 

Bjarni Jónasson varð annar á hinum fasmikla Roða frá Garði og fóru þeir félagar mikinn á yfirferðatölti þar sem þeir uppskáru einkunn yfir 8. 

Þórarinn Eymundsson og Taktur frá Varmalæk áttu mjög góða sýningu á hægu tölti og leiddu eftir það atriði.  Taktur er athyglisverður hestur og ekki kæmi á óvart ef hann ætti eftir að sjást á fimmgangsvængnum einn daginn. 

Líney María sem kom uppúr B-úrslitum getur vel við unað. Hestur hennar Völsungur vakti mikla athygli og með meiri þjáfun hjá þessum snjalla knapa getur hann orðið í fremstu röð.

Vigdís Gunnarsdóttir var að keppa í deildinni í fyrsta sinn og komst vel frá sínu á gæðingnum Freyði frá Leysingjastöðum. 

Af nýjum hrossum sem ekki komust í úrslit vakti Grettisdóttirin Embla frá Þóreyjarnúpi athygli. Hágeng og léttstíg fór hún skemmtilega um höllina hjá knapa sínum Jóhanni B. Magnússyni. 

Félag Tamningamanna veitti fjöðrina fyrir framúrskarandi reiðmennsku og hlaut hana Bjarni Jónasson. Björn Sveinsson frá Varmalæk afhenti fjöðrina fyrir hönd FT. Bjarni var vel að þessari viðurkenningu kominn þar sem hestur hans Roði frá Garði leysti sitt prógramm sáttur af léttleika og öryggi. 

Stemming var á áhorfendapöllum og gefur góð fyrirheit um framhaldið. 

Eftir þetta fyrsta kvöld hefur lið Hrímnis tekið forustu í liðakeppninni og laekjamot.is er þar ekki langt undan. "

-Meistaradeild-Norðurlands-
Svala Guðmundsdóttir 

Hægt er að sjá niðurstöður frá mótinu hér