miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Umdeildar ákvarðanir í fótaskoðun

8. ágúst 2019 kl. 06:38

Glódís Rún og Trausti frá Þóroddsstöðum

Glódís Rún fær keppnisrétt í dag

Þeir sem fylgdust með forkeppni í fimmgangi í gær urðu þess vitni að Glódís Rún Sigurðardóttir og Trausti frá Þóroddsstöðum áttu feykilega góða sýningu. Hlutu þau í einkunn 6,40, sem hefði dugað í efsta sætið fyrir úrslit í ungmennaflokki.

Eftir að Glódís kom útaf tók við fótaskoðun þar sem athugað er hvort búnaður sé löglegur sem og hvort hesturinn sé ósærður. Starfsfólk í fótaskoðun fann, að þeirra mati, nuddsár í munni hestsins og fyrir það hlaut Glódís ekki einkunn.

Niðurstöðu fótaskoðunar var áfrýjað og vildi Glódís Rún og landsliðsþjálfarar fá álit dýralæknis á því hvort um nýtt sár væri að ræða. Í stuttu máli að þá var þeirri áfrýjun hafnað og því skoðaði dýralæknir Trausta ekki að loknum fimmgangi.

Í morgun fór hinsvegar fram skoðun dýralækna á þeim hestum sem mæta eiga til keppni í dag. Það er skemmst frá því að segja að dýralæknir taldi Trausta fullfrískan.

Glódís Rún hefur hinsvegar ákveðið að mæta ekki til keppni í slaktaumatölti heldur einbeita sér að gæðingaskeiðinu sem fer fram síðar í dag.

Ljóst er að hér er pottur brotinn í regluverki FEIF þar sem ómenntað fólk getur dæmt hesta úr leik án læknisfræðilegrar sönnunar. Spurningin er því hvort ekki þyrfti að breyta reglum þannig að keppendur ættu alltaf rétt á að fá mat dýralækna þegar upp kom mál að þessu tagi og þeir hafi úrslitavægið. Með þessu er ábyrgðin einnig tekin af því starfsfólki sem annast fótaskoðun og ábyrgðin er faglærðra dýralækna.

Glódís og Trausti eru ekki einsdæmi því allir þeir hestar sem ekki hlutu einkunn í fimmgangi í gær eru, samkvæmt dýralæknum, heilir heilsu.

Frauke Schenzel á Gusti vom Kronshof er ein af þeim keppendum sem ekki hlutu einkunn í gær í fimmgangi en hún mætir til keppni í dag.