sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um járningu keppnishrossa

18. júní 2011 kl. 17:13

Um járningu keppnishrossa

Sigurður Torfi Sigurðsson járningameistari sendi Landsmóti áhugavert bréf varðandi járningar keppnishrossa á mótinu. Honum er vitanlega umhugað um að þessi mál séu í lagi og því birtum við hugrenningar hans hér.

"Undanfarið hafa nokkrir aðilar sett sig í samband við mig varðandi járningar á landsmótshestum. Þessir aðilar hafa verið að járna hesta sem hafa farið í gegn um úrtöku og hafa í einhverjum tilvikum lent í því að hófar séu of langir og skeifur of breiðar. Ég vil ítreka það að menn mæli vel hófa hesta sinna og breidd skeifna fyrir mót. Hámarkslengd hófa er 9,5 cm, undantekning er ef hestar mælast 145 cm á herðar eða hærri en þá mega hófar vera 10 cm langir en þó þurfa að liggja fyrir löggiltir pappírar því til stuðnings sem eru útprentanir úr Worldfeng eða undirritað vottorð frá dýralækni.

Hámarks breidd skeifna er 23 mm þannig að ef skeifa fer einhvers staðar yfir það mál er járning dæmd ólögleg. Hámarks þykkt skeifna er 10 mm en leyfilegt er að nota krans að auki, hámarks þykkt skeifna þegar járnað er einnig á botna er 8 mm og hámarksþykkt botna er 5 mm og hámarksþykkt fleyga er 2 mm við tá og 8 mm við hæl.

Beina þarf til knapa að mæta tímanlega með hesta sína í forskoðanir á mótinu. Þegar hestur hefur fengið grænt ljós í forskoðun koma fótaskoðunarmenn til með að merkja við þann hest og sú mæling látin gilda á mótinu svo
framalega sem hestur sé ekki járnaður upp á milli umferða. Knapi sem mætir með hest sinn í forskoðun er þar með öruggur út mótið, kemur þá einungis til eftirlits og mælingar á hlífum í keppninni sem er framkvæmt eftir að
riðið er úr braut. Knöpum verður frjálst að koma og mæla hlífar áður en þeir fara í braut en mæling hlífa er eins og fyrr sagði framkvæmd eftirá og er það sú mæling sem er gild í keppninni."

Að lokum er vert að minna á sérstakt bréf um fótaskoðun á mótinu, sem sent var á öll hestamannafélögin í landinu fyrr í mánuðinum. Hægt er að lesa það hér.”

Með bestu kveðju, 

Sigurður Torfi