þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um hvað snýst hestamennskan?

5. nóvember 2013 kl. 19:00

Formannafundur LH fer fram annað hvert ár, á móti Landsþingi. Mynd frá Landsþingi 2012.

Formenn funda á föstudag.

Nýliðunarmál verður þungamiðja formannafundar LH. Bæta þarf agaleysi, stjórnleysi og ósamstöðu hópa innan hestamennskunar og bæta ímynd hennar út á við, samkvæmt stjórn landssambandsins. Ljóst er að hestamenn munu sitja á rökstólum á föstudag.

Annað hvert ár stendur Landssamband hestamannafélaga fyrir formannafundi þar sem formenn allra hestamannafélaga landsins koma saman ásamt formönnum nefnda LH og dómarafélaga. Á fundinum er starfsemi LH kynnt, nefndir segja frá vinnu sinni, verkefni framundan skeggrædd og góð starfsemi innan hestamannafélaga verðlaunuð.

Er ólga innan hestamennskunar?

Slíkur fundur verður haldinn nk. föstudag og er líklegt að nýliðunarmál og ímynd verði mikið rædd meðal stjórnenda hestamannafélaga. Í fundargerð varpar stjórn LH fram stórum spurningum fyrir formannafundinn:

“Það þarf að skoða um hvað hestamennskan snýst?  Snýst hún um hversu margir hestar eru seldir á ári?  Eða hversu mikil fjölgun er í hestamennskunni? Hvort er mikilvægara?Mikil ólga er ríkjandi  innan hestamennskunnar. Hvað getum við gert til að breyta þessu? Okkur sjálfum? Hvar erum viðstödd gagnvart þessum gildum: ímynd – virðing – agi!”

Efling nýliðunar í nefndum

Í haust var Haraldur Þórarinsson, formaður LH inntur eftir því hvernig sambandið hafi brugðist við köllun um nýliðun innan hestamennskunar. Sagði hann að tvær nefndir hefðu verið stofnaðar; önnur sem fjallaði um kostnað innan hestamennskunar, hin um ímynd hennar. Viðtalið við Harald má nálgast í septemberblaði Eiðfaxa.

En hestamennskan snýst annað og meira en nefndarsetu og rökræður. Nefndirnar fyrrnefndu munu að öllum líkindum skila af sér niðurstöðum á formannafundinum. Verður athyglivert að heyra tillögur þeirra til úrbóta – og sjá þeim svo fylgt eftir.