mánudagur, 11. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um hvað snúast kosningar stjórnar LH

7. nóvember 2014 kl. 10:00

Hulda Gústafsdóttir

Greinarkorn frá þingfulltrúa - aðsend grein.

"Kæru félagar, hestamenn nær og fjær

Nú standa fyrir dyrum kosningar til formanns og stjórnar Landssambands hestamannafélaga. 

Frá því að þingi LH var frestað, í lok október, hafa hestamenn brotið  heilann um hugsanlega frambjóðendur til formanns, stjórnar og varastjórnar.  Þegar þetta er skrifað liggja fyrir 3 framboð í stjórn, 10 í aðalstjórn og 5 í varastjórn.  Framboðsfresti er þó ekki lokið og því kannski ekki allir búnir að tilkynna framboð sín.  Allt frambærilegt fólk, alls staðar að af landinu sem samanlagt hefur mikla reynslu, hvert á sínu sviði.

Hestamenn virðast vera að skiptast í fylkingar og aðallega virðast þær fylkingar snúast um það hvar eigi að halda Landsmót.  Menn róa hver sinni ár og í sitt hvora áttina og því miður virðist sundrung sú sem vart varð á þinginu alls ekki á undanhaldi.

Þess vegna langar mig að vekja athygli þingfulltrúa á að Landssambandið snýst einungis að hluta um Landsmót.  Þegar við kjósum stjórn þurfum við að huga að öllum hinum málunum sem LH stendur fyrir, æskulýðsmálum, reiðvegamálum, keppni í hestaíþróttum, gæðingakeppni, erlendu samstarfi, fræðslumálum ýmiss konar, nýliðun í hestamennsku og svo mætti áfram telja.

Síðasta þingi lauk á dramatískan og fyrir samtökin, sorglega hátt.   Leggjumst á eitt að ljúka komandi þingi í sátt og horfa fram á veginn, ekki í baksýnisspegilinn.  Hugsum um stóra samhengið og kjósum í samræmi við það, látum hreppapólitík og baktjaldamakk ekki villa okkur sýn og hugsum um velferð og framtíð Landssambands hestamannafélaga.

Ég vill í því samhengi skora á nýja stjórn LH að halda Uppskeruhátíð samtakanna sem allra fyrst, hestamenn þurfa á því að halda að koma saman og skemmta sér og fagna afrekum liðins árs."

Gleðilegt LH þing
Kveðjur
Hulda Gústafsdóttir