miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Um 1000 hross á Landsmóti

29. apríl 2010 kl. 10:54

605 keppendur eiga þátttökurétt í gæðingakeppni

121 keppandi á þátttökurétt í hvern flokk gæðingakeppninnar á LM2010, sem eru fimm: Ahliða gæðingar, klárhestar, ungmennaflokkur, unglingaflokkur og barnaflokkur. Alls eiga því 605 keppendur þátttökurétt. Lágmarkseinkunn- og tími gilda hins vegar í tölt og skeiðkappreiðar.

Á LM2008 voru 475 keppendur skráðir til leiks í öllum flokkunum, fyrir utan varahesta. Í tölti voru 34 keppendur, í 150 m skeiði 15 keppendur, í 250 m skeiði 15 keppendur og í 100 m fljúgandi skeiði 20 keppendur. Alls 559 keppendur, auk varahesta, sem eru um það bil tíu til tuttugu í hverjum flokki. Hátt í þrjú hundruð hross sem taka þátt í kynbótasýningum og ræktunarbússýningum, og síðan eru allmörg hross á hverju Landsmóti sem ekki eru í keppni en taka þátt í hópreiðinni, sem alla jafna er mjög tilkomumikil. Það eru því hátt í þúsund hross sem taka þátt í sýningum og keppni á Landsmótum þegar allt er talið.