miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvö ný Íslandsmet í skeiði

Jens Einarsson
6. nóvember 2009 kl. 14:05

Tveir methafar frá HM2009 hafa ekki sótt um

Tvö ný Íslandsmet í skeiði, sett á rafræna klukku, hafa verið staðfest af LH. Það er gamla kempan Sigurbjörn Bárðarson sem á bæði metin. Frá og með yfirstandandi ári eru öll ný met þar sem rafrænn búnaður er notaður skráð sem ný Íslandsmet. Gömlu Íslandsmetin, sett með handklukkum, verða þó áfram á skrá sem slík og talin gildandi Íslandsmet.

Það var garpurinn Óðinn frá Búðardal sem hljóp 150 metra skeiðið á 4,15 sekúndum á Metamóti Andvara, 5. september 2009. Flosi frá Keldudal hljóp 250 metrana á 22,47 sekúndum á sama móti degi síðar.

Þess skal getið að tveir íslenskir knapar náðu betri tímum í 250 metra skeiði á HM2009 í Sviss. Bergþór Eggertsson náði tímanum 21,01 sekúndu á Lótusi frá Aldenghoor og heimsmeistaratitli í greininni, og Guðmundur Einarsson náði tímanum 21,31 sekúndu á Sprota frá Sjávarborg og þriðja sæti í hlaupinu. Hvorugur hefur sótt um staðfestingu til LH um Íslandsmet.