fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvö efstu hrossin frá Vestri-Leirárgörðum

14. mars 2015 kl. 09:47

Lið Hrímnis stendur efst að stigum í liðakeppni KS deildarinnar eins og er og þau Þórarinn, Valdimar og Líney eru efstu þrír knapar einstaklingskeppninnar.

Lið Hrímnis í öruggri forystu liðakeppni KS-deildarinnar.

Fimmgangskeppni KS-Deildarinnar fór fram miðvikudagskvöldið 11.apríl í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki.

Góðir hestar voru skráðir til leiks og áttu menn von á skemmtilegri kvöldstund á Króknum, samkvæmt frétt frá mótshöldurum.
"Það kom glöggt í ljós að fimmgangskeppni innanhús er brothætt keppnisgrein.
Knapar sem fyrirfram var reiknað með að stæðu sig vel gerðu mistök sem urðu til þess að þeir komust ekki alla leið.

Efstir eftir forkeppni urðu Þórarinn og Narri. Þeir áttu jafna og góða sýningu og hefur hesturinn mikla útgeilsun. Greinilegt er að Þórarinn er á réttri leið með Narra.

 Efstur inn í b-úrslit var Elvar Einarsson á hryssunni Gátu og þar stutt á eftir kom liðsfélagi hans Tryggvi Björnsson á stóðhestinum Kná. Bæði Gáta og Knár eru frá Ytra-Vallholti.
Fjórði inní b-úrslit varð Gísli Gíslason með Karl frá Torfunesi og gerðu þeir félagar sér lítið fyrir og sigruðu b-úrslitin. Gísli sýndi að venju fágaða reiðmennsku og jafnar gangtegundir hestsins skiluðu þeim alla leið í a-úrslit.

Í a-úrslit mættu fimm 1.verðlauna hross, fjórir stóðhestar og ein hryssa.
Þórarinn og Narri virtust frekar eflast og var snemma nokkuð ljóst að erfitt yrði að velta þeim úr sessi. Enda fór það svo að þeir sigruðu með einkunina 7,69.
Teitur Árnason kom annar inn í a-úrslit með ungan og stórefnilegan hest, Óskahring frá Miðási. Sýndu þeir mjög skemmtilega takta en lenti Teitur í smá brasi með skeiðið. Óskahringur er hestur sem vert er að fylgjast með í framtíðinni. Þeir félagar urðu í þriðja sæti með einkunina 6,76.

Þriðja inn í a-úrslitin kom Líney María með gæðinginn Kunningja frá Varmalæk. Stóðu þau fyrir sínu en erfiðleikar á brokki urðu til þess að Líney fór niður í fimmta sætið með einkunina 6,45.
Fjórða inní a-úrslit var Hallfríður með hryssuna Kolgerði. Þar er á ferðinni par sem lengi hefur verið á keppnisvellinum og ávalt staðið fyrir sínu. Það var einnig að þessu sinni og flott reiðmennska Hallfríðar og frábærlega útfærðir skeiðsprettir skiluðu þeim í annað sætið með einkunina 7,17.

Gísli Gíslason sem kom uppúr b-úrslitum hélt áfram með hnökralausa sýningu og hlutu þeir fjórða sætið og einkunina 6,67.

Gaman er að segja frá því að hrossin í fyrsta og öðru sæti, Narri og Kolgerður eru bæði frá Vestri-Leirárgörðum.
Þess má og til gamans geta að eigendur stóðhestana Kunningja og Óskahrings eru bræðurnir Björn og Gísli Sveinssynir frá Varmalæk.

Mjög góð aðsókn hefur verið á fyrstu mót KS-Deildarinnar í vetur og bíða menn nú spenntir eftir  töltinu sem haldið verður 25.mars." 

Staðan í deildinni er eftirfarandi:

Einstaklingskeppni:

 1. Þórarinn Eymundsson/Hrímnir     34 stig
 2. Valdimar Bergstað/Hrímnir           31 stig
 3. Líney María/Hrímnir                     26 stig
 4. Hanna Rún/Íbess Gæðingur        25,5 stig
 5. Elvar Einarsson/Hofstorfan/66°    23 stig
 6. Teitur Árnason/TopReiter              23 stig
 7. Bjarni Jónasson/Hofstoefan/66°   22,5 stig
 8. Hallfríður S.Óladóttir/TopReiter    19 stig
 9. Lilja Pálmadóttir/Hofstorfan/66°    18 stig
 10. Mette Mannseth/Þúfur/Draupnir   16 stig

Liðakeppni:

 1. Hrímnir                             91 stig
 2. Hofstorfan/66°norður       76,5 stig
 3. TopReiter                         60 stig
 4. Þúfur/Draupnir                 44 stig
 5. Íbess-Gæðingur              43,5 stig
 6. Efri-Rauðalækur/Lífland  33 stig