sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tveir synir Pyttlu í úrslitum

Jens Einarsson
26. ágúst 2010 kl. 11:16

Stóðhestarnir Frægur og Glymur

Tveir synir stólpahryssunnar Pyttlu frá Flekkudal eru í úrslitum í fimmgangi á Íslandsmóti fullorðinna, sem nú fer fram á Sörlastöðum í Hafnarfirði. Það eru stóðhestarnir Glymur 7 vetra (8,52), undan Keili frá Miðsitju, og Frægur 8 vetra (8,04), undan Gusti frá Hóli. Knapi á Glym er Hinrik Bragason en á Frægum Sólon Morthens.

Pyttla er undan Adam frá Meðalfelli og Drottningu frá Stóra-Hofi, Náttfaradóttur frá Ytra-Dalsgerði. Hún er með hæst dæmdu kynbótahryssum landsins (8,55) og stóð efst í elsta flokki hryssna á LM2004 á Gaddstaðaflötum, og blandaði sér í toppbaráttu, bæði í A flokki gæðinga og fimmgangi, undir hnakk hjá Sigurði Sigurðarsyni, sem á helming í hryssunni. Helming á móti honum á Guðný Ívarsdóttir í Flekkudal. Ræktandi er Kristján Mikaelsson.

Pyttla á níu skráð afkvæmi. Fjögur eru með fullnaðardóm og þrjú með fyrstu verðlaun. Það fjórða alveg við línuna með 7,97. Sannarlega frábær gripur Pyttla.