sunnudagur, 15. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tvær konur eiga möguleika í Meistaradeild

29. mars 2012 kl. 09:22

Artemisia Bertus á góða möguleika á að verða fyrsta konan til að vinna Meistaradeildina í hestaíþróttum.

Stefnir í einvígi milli Artemisiu og Jakobs

Tvær konur eiga möguleika í sigri í Meistaradeild í hestaíþróttum. Úrslitamótið fer fram annað kvöld (föstudaginn 30. mars) í Ölfushöll, en þá verður keppt í fimmgangi. Húsið opnar klukkan 17.00.

Efst að stigum fyrir mótið er Artemisia Bertus með 41 stig, jöfn Jakobi Svavari Sigurðssyni. Sara Ástþórsdóttir er með 34 stig, Sigurbjörn Bárðarson með 32 stig og Sigurður Sigurðarson með 29 stig.

Telja má nokkuð augljóst að baráttan um efsta sætið verði einvígi á milli Artemisiu og Jakobs. Svo fremi að þau séu vel ríðandi og hafi heppnina með sér. Sara á hins vegar möguleika ef hún nær hreinu efsta sæti, 12 stigum, og hin fallera. Sömuleiðis Sigurbjörn ef hann vinnur fimmgangin, sem er sterk grein hjá honum, og Artemisia og Jakob fá ekkert stig. Sem er ólíklegt. Sigurbjörn og Sigurður hafa báðir orðið "meistarar" oftar en einu sinni, og Jakob verið nálægt því. Kona hefur hins vegar aldrei unnið deildina.

Þetta er í fyrsta sinn sem "matsgrein" er síðust í mótaröðinni. Sem þýðir að staða efstu knapa getur haft áhrif á dómarana. Til þessa hafa klukkugreinar verið síðasta grein, þar sem frammistaða knapans og rafeindaklukka ráða úrslitum klippt og skorið.