mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tumi gamli stendur sig

24. febrúar 2011 kl. 10:37

Viðar Ingólfsson á Tuma frá Stóra-Hofi.

Siggi Sig. ennþá efstur að stigum í Meistaradeildinni

JENS EINARSSON/ UMFJÖLLUN:

Fátt kom á óvart í tölti Meistaradeildar í hestaíþróttum á Suðurlandi, sem fram fór í Ölfushöllinni gærkvöldi. Sigurvegari voru góðkunningjar hestamanna, Viðar Ingólfsson og Tumi frá Stóra-Hofi, Seimssonur frá Víðivöllum. Er þetta í annað sinn sem þeir bera sigur úr býtum í tölti í Meistaradeildinni. Tumi er í ágætu formi, sjálfum sér líkur og ekki langt frá sínu besta, ef tekið er mið af aðstæðum. Í rauninni er gott að hafa svona þekktan hest til viðmiðunar við þá sem eru að koma nýir inn, sem njóta oft fersleikans um of ef viðmiðunin er engin. Lokaeinkunn Viðar og Tuma var 8,17.

Sigursteinn Sumarliðason á Ölfu frá Blesastöðum varð í öðru sæti (eftir hlutkesti) með 7,83. Alfa, sem er undan Orra frá Þúfu og Blúndu frá Kílhrauni, Kjarvalsdóttur, er mikill gæðingur og yfirferðin frábær. Framganga hennar og knapans er vaskleg. Hins vegar hefði verið notalegt að sjá hana dilla sér og sleppa taumi á hægu tölti, þótt ekki hefði verið nema annað slagið.

Sigurður Sigurðarson mætti til leiks á þekktum töltara og keppnishrossi, Jódísi frá Ferjubakka, Geisladóttur frá Sælukoti. Sigurður var hálf feiminn á hryssunni í forkeppni og náði ekki inn í A úrslit. Hann vann síðan B úrslit og hafnaði að lokum í öðru til þriðja sæti með 7,83.

Eftirtektarvert var hve Sigurður lagði sig fram um létt taumhald og réttan takt. Hann fékk þó ekki umbun fyrir það hjá dómurum á hæga töltinu. Ekki heldur Hulda Gústafsdóttir á Sveig frá Varmadal, en þessi tvö hross höfðu dillandi mjúkt og taktgott tölt umfram önnur í úrslitum; sannanlega á þeirri gangtegund sem verið var að keppa í, sem stundum er vart hægt að fullyrða um öll hross sem komast á verðlaunapall í töltkeppni. Sveigur þó ókyrr í höfuðburði. "Pressuð" og bundin hross á hægu tölti eiga ennþá upp á pallborðið hjá dómurum.

Í fjórða sæti hafnaði Jakob Svavar Sigurðsson á Árborgu frá Miðey með 7,78, í fimmta sæti Hulda Gústafsdóttir á Sveig frá Varmadal með 7,56, og í sjötta sæti Þorvaldur Árni Þorvaldsson á Smyrli frá Hrísum með 7,50. Smyrill er nýlegur hestur í keppnisbrautinni, undan Skorra frá Gunnarsholti og Mirru frá Meðalfelli, sem ekki er skráð með foreldra í WorldFeng. Hann kom fyrst fram í fyrra, knapi þá Sigurbjörn Viktorsson.

Í einstaklingskeppninni stendur Sigurður Sigurðarson, Lýsi, enn á toppnum með 28 stig. Hulda Gústafsdóttir er komin í annað sætið með 22 stig og Jakob Svavar Sigurðsson í það þriðja með 21 stig.
Mjótt er á munum í liðakeppninni en þar stendur enn á toppnum lið Lýsis með 121 stig, í öðru sæti lið Top Reiter/Ármóta/66°Norður með 119,5 stig og í því þriðja lið Árbakka/Norður-Gatna með 109 stig.