föstudagur, 18. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tryggvi ætlar að verja titil sinn í fjórða sinn

7. febrúar 2015 kl. 12:00

Tryggvi Björnsson sigraði A-flokk gæðinga á Ís-landsmótinu á Svínavatni á hryssunni Þyrlu frá Eyri.

Ís-landsmótið á Svínavatni verður haldið í áttunda sinn.

Ís-landsmótið á Svínavatni í Austur-Húnavatnsýslu verður haldið í áttunda sinn laugardaginn 28. febrúar næstkomandi. Mótið hefur notið vinsælda meðal hestamanna undanfarin ár en þar er keppt í A- og B- flokki gæðinga og opnum flokki í tölti.

Tryggvi Björnsson tamningamaður á Blönduósi er einn af skipuleggjendum mótsins. Í samtali við Eiðfaxa sagði hann mótið ávallt skemmtilegan viðburð. Hann mun nú reyna að verja titil sinn í fjórða sinn í A-flokki. Hyggst hann mæta á stóðhestinum Blæ frá Miðsitju, en á honum sigraði hann A-flokk mótsins árið 2012 og 2013.

Tryggvi tekur þátt í öllum flokkum mótsins og ætlar hann að tefla fram Hlyn frá Haukatungu í B-flokki, sem hefur gert garðinn frægan í yngri flokkum Landsmóts 2012 og 2014. Þá stefnir hann með Hvin frá Blönduósi, Álfssyni úr eigin ræktun, í töltkeppni mótsins.

Í fyrra sigraði Hans Þór Hilmarsson B-flokk og tölt Ís-landsmótsins á hryssunni Síbíl frá Torfastöðum.

Vegleg peningaverðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sæti í hverjum flokki í ár, fyrir tilstuðlan helstu styrktar aðila mótsins sem eru; Hrossaræktarbúið Geitaskarði, G. Hjálmarsson, Margrétarhof og KS. 

Vefsíðu Ís-landsmótsins má nálgast hér.