laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tóti tekur fyrir taumsamband: "Sýnikennslur tengja praxís og teoríu"-

17. febrúar 2011 kl. 14:42

Tóti tekur fyrir taumsamband: "Sýnikennslur tengja praxís og teoríu"-

Tamningameistarinn og reiðkennarinn Þórarinn Eymundsson mun vera með sýnikennslu á 40 ára afmælishátíð FT á laugardaginn. Eiðfaxi forvitnaðist um sýnikennslu Þórarins sem ber yfirskriftina Taumsamband.

„Ég mun taka fyrir taumsamband á fjölbreyttan hátt. Mér finnst þurfa að hugsa hvernig taumurinn og taumsamband á að virka. Ég mun fara yfir taumsamband fyrir mismundandi tamningastig, gangtegundir og viðhorf sem knapi þarf að hafa gagnvart þeim ábendingum sem hann leitast eftir gegnum tauminn,“ segir Þórarinn.

Hann segir sýnikennsluformið afar sniðuga leið til að miðla þekkingu. „Sýnikennslur eru mikilsmetin kennsluaðferð innan kennslufræðanna, þar sem blandað er saman fræðilegu efni við verklegar útskýringar. Þær virðast líka eiga vel við nemendur, enda er gott að sjá hlutina og tengja saman praxís og teóríu. Sýnikennslur eru myndrænar og allt sem er myndrænt höfðar vel til áhorfenda enda virkjar hún margar skynjanir í einu.“

Þórarinn segir FT hafa mikilvæga þýðingu fyrir framþróun hestamennskunnar á Íslandi. „Nauðsynlegt er að fagfólk í tamningum, þjálfun og reiðkennslu hafi hagsmunasamtök. FT stuðlar að hagsbótum og þekkingu á hestamennsku í þeim tilgangi að velferð íslenska hestins aukist. Með bættri reiðmennsku bætum við meðhöndlun og þar með líðan og endingu hestanna,“ segir hann.

Sýnikennsla Þórarins fer fram kl. 14.20 í reiðhöllinni í Víðidal en dagskrá hátíðarinnar spannar allan laugardaginn frá kl. 10 – 17.30. Miðaverð á hátíðina er 1.500 kr. og gildir á alla viðburði hátíðarinnar.

Þetta er auðheyranlega fræðsludagur sem enginn hestamaður má missa af.