laugardagur, 17. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Top Reiter / Ármót / 66°North

25. janúar 2011 kl. 11:27

Top Reiter / Ármót / 66°North

Síðasta liðið sem við kynnum til leiks er jafnframt elsta liðið í deildinni en það er lið Top Reiter / Ármóts / 66°North...

Liðsstjóri hjá þeim er Guðmundur Björgvinsson og með honum eru þeir Jakob Sigurðsson, Þorvaldur Árni Þorvaldsson og Bergur Jónsson.

Guðmundur Björgvinsson, liðsstjóri, er tamningamaður FT. Hann rekur tamningastöð á Ingólfshvoli, Ölfusi. Guðmundur er Landsmótssigurvegari, hefur setið nokkrum sinnum í íslenska landsliðinu og hefur verið að gera góða hluti í kynbótasýningum.

Jakob Sigurðsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla. Hann rekur tamningastöð að Steinsholti, Hvalfjarðarsveit. Hann hlaut knapaverðlaun FT á LM2008, Íslandsmeistari í slaktaumatölti 2010 og hefur jafnframt verið að gera góða hluti jafnt í kynbótasýningum sem og á keppnisvellinum á undanförnum árum.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson er tamningamaður og reiðkennari frá Hólaskóla.
Hann stundar tamningu og þjálfun að Hvoli í Ölfusi. Þorvaldur er margfaldur Íslandsmeistari, hefur átt sæti í íslenska landsliðinu og verið í toppbaráttunni bæði í gæðinga- og íþróttakeppni á undanförnum árum.

Bergur Jónsson er aldursforsetinn í liðinu. Hann er tamningamaður og hrossarætarmaður á Syðri-Gegnishólum/Ketilsstöðum og hlaut verðlaunin Hrossaræktarmaður ársins 2010 ásamt sambýliskonu sinni Olil Amble. Hann hefur verið áberandi í kynbótasýningum undanfarin ár við góðan árangur og var tilnefndur sem kynbótaknapi ársins 2010.

Að Ármótum á Rangárvöllum er eitt glæsilegasta hrossaræktar- og ferðaþjónustubýli á Íslandi. Þar er stunduð metnaðarfull hrossarækt ásamt því að boðið er upp á að taka hryssur og stóðhesta í uppeldi, sumarbeit og/eða vetrarfóðrun. Þar er einnig boðið upp á skotveiði, stangveiði og sérstakar ævintýraferðir ásamt því að taka á móti hópum í gistingu, grillveislur, ráðstefnur og aðrar uppákomur.

Verslunin Top Reiter var opnuð í desember 2007. Þar er að finna flest allt sem þarf til hestamennskunnar. Verslunin kappkosar að bjóða faglega og persónulega þjónustu í fallegu umhverfi. Heimasíða Top Reiter er www.topreiter.is.

66°Norður er eitt elsta framleiðslufyrirtæki Íslands. Fyrirtækið hóf framleiðslu á sérstökum hlífðarfatnaði fyrir sjómenn og fiskverkunarfólk á norðurslóðum árið 1926. Seinna bættist við vörulínuna vinnufatnaður fyrir fólk í landi. Á síðustu árum hefur 66°Norður sótt í sig veðrið, bæði innanlands sem utan, með aukinni fjölbreytni í fatnaði og framleiðslu fyrir alla aldurshópa með áherslu á hönnun og gæði. Í dag fást vörur fyrirtækisins í yfir 500 verslunum í 15 löndum.