fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Töltþjálfun

16. desember 2011 kl. 17:07

Töltþjálfun

Nú þegar vetrarþjálfun er að fara af stað er ekki úr vegi að rifja upp nokkrar grunnæfingar. Oddrún Ýr Sigurðardóttir skrifaði grein, sem ber heitið "Töltþjálfun" um mýkjandi og liðkandi æfingar í 10. tbl. Eiðfaxa árið 2007. Við birtum hana hér lesendum til gagns og upprifjunar:

Allir eiga sé sinn uppáhaldshest, en stundum breytist þessi uppáhaldshestur, er ekki alveg jafn góður á töltinu eins og hann var þegar maður fékk hann og maður veltir því fyrir sér – hvað gæti verið að? Þetta er eflaust spurning sem margur hestamaðurinn spyr sig einhvern tíma í þjálfunarferlinu. Í þessari grein ætla ég að fara yfir nokkrar æfingar sem flestir hestamenn ættu að geta nýtt sér til að bæta uppáhaldshestinn sinn á tölti.

Forsendur knapa og hests

Tölt er fjórtakta (hlaupandi) sviflaus gangtegund, jafnt tímabil er á milli niðurkomu fóta, fótaröðun á tölti er hægri aftur, hægri fram, vinstri aftur, vinstri fram.

Forsendur knapans til að ríða gangtegundina tölt er að hann hafi stjórn á hraða (hestur taki vel við ábendingum knapa) og stefnu hestsins (hestur fari sáttur í þá átt sem knapinn biður um), auk þess sem það er auðvitað líka skilyrði að hann þekki gangtegundina. Nauðsynlegt er að hafa góða tilfinningu fyrir takti, ójafn taktur hefur ekki góð áhrif á tölt né aðrar gangtegundir og að geta haft stjórn á hraða hestsins. Síðan er vert að nefna að gott jafnvægi knapa er mjög mikilvægt, þ.e. bæði líkamlegt og andlegt. Einnig þarf knapinn að kunna skil á hvetjandi og hamlandi ábendingum og nota þær rétt.

Forsendur hestsins eru þær að hann verður að þekkja gangtegundina tölt, kunna eins og knapinn sil á hvetjandi og hamlandi ábendingum og skilja þær. Gott er fyrir hestinn að vera mjúkur og spennulaus í skrokknum svo að vinnan fram undan verði sem auðveldust og skemmtilegust bæði fyrir mann og hest.

Hestar eru jú misjafnir eins og þeir eru margir og eiga misauðvelt eða erfitt með að tölta, fyrir suma hesta er þetta allt saman mjög auðvelt og þeim er eðlislægt að ganga í hreinum fjórtakti. En fyrir aðra getur verið mun erfiðara, þ.e. þeir sækja í brokk og þá er styttra á milli hófslaga skástæðra fóta og/eða skeið, en þá er styttra á milli hófslaga hliðstæðra fóta.

Hér að neðan ætla ég að nefna nokkrar leikfimiæfingar sem hjálpa til við þjálfun gangtegundarinnar tölts. Æfingar þessar kallast liðkandi æfingar sem eins og orðið ber með sér liðkar hestinn, mýkir hann og gerir honum auðveldara með að sveigja sig. Auk þess undirbúa þessar æfingar hestinn fyrir safnandi æfingar sem felast í því að hesturinn fer að kreppa afturhlutann meira og bera meiri þyngd á afturhlutanum.

Æfingar til að mýkja hestinn

Að vinna á baug/hring er eitthvað sem hægt er að framkvæma hvar og hvenær sem er. Margir spyrja sig eflaust hvað er baugur/hringur, er nokkuð mál að ríða einhverja hringi? En það er ekki sama hvernig farið er að, því það er eins og með þessa æfingu eins og aðrar, að ef þær eru vitlaust framkvæmdar virka þær öfugt á hestinn og hesturinn fer frekar að vinna á móti okkur en með okkur.

Þegar hringur/baugur er riðinn er hestinum vísað til hægri eða vinstri (fer eftir því upp á hvora höndina þú ert að ríða) með leiðandi innri taum (innri taumur/hlið er sú átt sem hesturinn er sveigður í), þ.e. innri hönd leiðir hestinn mjúklega inn á hringinn með taumnum, stillir hestinn inn í sveigjuna. Það má alls ekki toga harkalega í tauminn, það er bæði óþægilegt fyrir hestinn og hann hefur engan áhuga á að vinna með okkur með þessum hætti, hann sér hreinlega engan ávinning í því. Nóg er að kreista höndina og losa þegar við á eða um leið og hesturinn gerir rétt og svarar ábendingu frá knapanum. Þá á að koma los á tauminn, það er umbun hestsins. Síðan er það ytri hönd knapans, hún stillir sveigjuna og er nokkuð stöðug á þeim stað þegar hesturinn er orðinn rétt stilttur, rétt sveigður hestur beygir sig jafn frá hnakka aftur að taglrót.

En það þarf nú mikið meira til í þessari æfingu en bara að hreyfa hendurnar, þær eru einungis eitt tæki af mörgum svo að samspilið megi ganga upp. Fætur knapans spila einnig stóran þátt í æfingunni, talað er um að hesturinn eigi að sveigja sig um innri fót knapans þannig að innri fótur er staðsettur við gjörð hnakksins og virkar hvetjandi þ.e. hvetur hestinn áfram inn í beygjuna, en hafa skal í huga að áreiti með fæti má ekki vera stöðugt frekar en annað sem við gerum þegar við vinnum með hestinn. Ytri fótur knapans er svo staðsettur u.þ.b. handarbreidd fyrir aftan gjörð og virkar sá fótur hamlandi, þ.e. passar upp á það að hesturinn gangi ekki með afturhlutann út úr beygjunni.

Næst förum við í það hvernig þyngdinni í sætinu er stjórnað. Þegar baugur/hringur er riðinn og hesturinn sveigður þarf knapinn alltaf að horfa í þá átt sem riðið er í, axlir knapans þurfa að vera samhliða bógum hestsins, eins og er með mjaðmir knapans, þær þurfa að vera samhliða lend hestsins. Ef knapinn situr rétt leggst aðeins meiri þyngd á innra setbein sem gerir það að verkum að hesturinn leitast við að ganga undir þyngd knapans og fer að bera meiri þyngd á innri afturfæti. Best er að byrja þessa æfingu á þeirri hlið hestsins sem reynist honum auðveldari.

Þegar hestur gengur réttur á baug, sem kemur yfirleitt ekki fyrr en eftir markvissa og góða þjálfun, á hann að vera jafn sterkur til beggja hliða, vera samspora þ.e. afturfætur ganga í sömu spor og framfætur og, eins og áður hefur verið nefnt, hann á að bera meiri þyngd á  þeim afturfæti sem hann er sveigður í.

Dæmi um þann ávinning sem fæst við að ríða bauga/hringi rétt: Æfingin losar um stífni og mýkir hestinn upp, styrkir afturpartinn, losar um spennu ef hún er til staðar, bætir gangtegundir hestsins, þar á meðal töltið og síðast en ekki síst þjálfar knapann til að stjórna hesti sínum vel og eykur samspil hvetjandi og hamlandi ábendinga til hestsins.

Þessa æfingu byrjar knapinn að ríða á feti og leiðir hestinn svo upp á hraðari gangtegund (tölt) þegar hesturinn er tilbúinn til þess, hann er orðinn mjúkur, eftirgefanlegur í hnakka og líkama og farinn að ganga samspora, orðinn jafnvígur upp á báðar hliðar. Fótaröðun fets og tölts er sú sama og því væri eðlilegt að hesturinn færi upp á tölt í framhaldinu af þessari æfingu, þó er mun erfiðara að ríða tölt á baug/hring fyrir bæði hest og knapa og því er nauðsynlegt að báðir aðilar séu tilbúnir í framhaldið.

Að ríða hesti sem er ekki hreinn á tölti, sveigðum (á baug), reynist flestum tilfellum vel, hesturinn fer að hreinsa sig á gangi og fer að ganga í hreinni fjórtakti.

Nauðsynlegt er að ríða hestinum ekki einungis á baugnum heldur leiða hann inn á milli yfir á beinan kafla og athuga hvort hesturinn fer í gamla farið aftur, stífnar í skrokknum, gengur í óhreinum takti eða á sama hátt og hann var áður en farið var að vinna með hann. Ef það gerist þá er hesturinn leiddur aftur inn á bauginn/hringinn og stilltur í rétta stillingu á ný. Þegar þessi æfing er orðin auðveld fyrir bæði hest og knapa er tímabært að halda áfram.

Stytt fet – hægt tölt

Þegar búið er að undirbúa hestinn vel, þ.e. gera hann mjúkan, sáttan og sveigjanlegan í skrokknum, er hægt að fara út í æfingu sem gerir meiri kröfur til bæði hests og knapa. Þessi æfing felst í því að hægja á fetgangi hestsins og safna honum saman, fá hann til að kreppa sig meira og bera meiri þyngd að aftan. Þessi æfing bætir jafnframt taktinn í töltinu, höfuðburð hestsins og gerir hann léttari á tauminn.

Þegar hingað er komið þurfa bæði hestur og knapi að kunna skil á því hvað hvetjandi og hamlandi ábendingar eru, annars er þessi æfing ekki framkvæmanleg.

Þegar fetið er stytt, eins og það er kallað, styttist skrefalengd hestsins og hann hægir á sér, taktur gangsins breytist ekki. Knapinn hvetur hestinn fram með sæti (léttir örlítið á sætinu), fótum og písk, þar á eftir kemur taumtakið sem þýðir stöðug hönd en leikandi. Um leið og hesturinn svarar ábendingunni, þ.e. gefur eftir í háls og hnakka og losnar af taumnum, tilbúinn fram, þá sest knapinn í sætið, minnkar áreiti frá písk og fótum. Þetta er gert nokkrum sinnumí röð á meðan hesturinn áttar sig á hlutunum. Næsta skref er síðan þegar knapinn finnur að það er komin orka í hestinn, hann er viljugur fram og þá á leiðin að opnast og hesturinn er hvattur upp á tölt af stytta fetinu, léttur á taum, samandreginn og vel krepptur að aftan. Ef svo hesturinn bregst ekki rétt við þegar komið eru pp á tölt, fer að streitast á móti beislinu, eykur hraðann og/eða missir takt, þá er ekkert annað að gera en að hægja aftur niður á fet og byrja upp á nýtt. Öll markviss og góð þjálfun getur tekið sinn tíma og því er nauðsynlegt að flýta sér hægt.

Æfingin skapar meistarann

Ef knapi og hestur ná að stilla saman strengi sína á þessum æfingum er mikill sigur unninn hjá báðum. Hestinum líður betur sem og knapanum, tími þeirra saman verður árangursríkari og skemmtilegri ef vandað er til verka.

Gangi ykkur vel.