föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Töltfimin komin með vængi

14. september 2012 kl. 16:04

Hleð spilara...

Sjö knapar riðu tvær umferðir í Töltfimi á æfingamóti á Skeiðvöllum síðastliðinn miðvikudag. Íþróttadómarar dæmdu keppnina.

Á milli og tuttugu og þrjátíu áhugasamir knapar, dómarar og áhugafólk um hestaíþróttir komu saman til fundar á Skeiðvöllum síðastliðinn miðvikudag til að prufukeyra Töltfimi FT og Hestablaðsins. Nánari lýsingu á keppnisforminu má finna hér á síðunni. Sjö knapar riðu prógrammið í tveimur umferðum. Pjetur N. Pjetursson, Elsa Magnúsdóttir og Magnús Lárusson dæmdu keppnina og Trausti Þór Guðmundsson lýsti hverju prógrammi um leið og það var riðið.

Knaparnir sem tóku þátt í þessu fyrsta prufumóti, eða æfingu, voru Anton Páll Níelsson, Hinrik Bragason, Hulda Gústafsdóttir, Ingimar Baldvinsson, Sigurður Sigurðarson, Reynir Örn Pálmason og Emil Fredsko Obilits. Allir eru sammála um að hér sé mjög áhugavert og spennandi keppnisform á ferðinni sem vert sé að þróa og koma á koppinn sem fyrst sem alvöru keppnisgrein.

Reynir Örn Pálmason reið hestinum Ormi frá Sigmundarstöðum, sem er ræktaður og taminn af Reyni Aðalsteinssyni, en Töltfimin er byggð á hugmynd sem hann var með í vinnslu nokkru áður en hann lést. Í meðfylgjandi myndbroti er viðtal við Reyni Örn og þar má sjá hann ríða kafla í Töltfiminni. Rétt er að taka fram að hrossin sem tóku þátt í mótinu hafa ekki verið þjálfuð sérstaklega fyrir þessa keppni og eru þar að auki ekki í mikilli þjálfun.

Töltfimin verður áfram í þróun og prufu næstu vikur. Fyrsta alvöru mótið mun þó líklega ekki verða haldið fyrr en á nýju ári þar sem svo fá hross eru í þjálfun og greinilegt að Töltfimin er mun vandriðnari en í fyrstu var talið.