föstudagur, 23. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Töltfimi frestað vegna Tommamóts

3. september 2012 kl. 15:39

Kjarnorka frá Kálfholti, knapi Sigurður Sigurðarson.

Hópur áhugasamra reiðmanna hefur myndast um Töltfimi FT og Hestablaðsins. Hópurinn mun fara yfir keppnisfyrirkomulag og dóma á fimmtudaginn.

Töltfimi Hestablaðsins og Félags tamningamanna hefur verið frestað um eina til tvær vikur.  Ástæðan er sú að Tommamótið, sem haldið er í minningu Tómasar heitins Ragnarssonar, verður haldið í Víðidal um næstu helgi og einhverjir knapar yrðu því að velja annað hvort mótið. Ný dagsetning verður auglýst næstkomandi föstudag.

Allstór hópur áhugasamra reiðmanna hefur myndast um Töltfimina og mun hópurinn funda  fimmtudaginn 6. september kl. 20.00 í Ölfushöllinni, þar sem farið verður nánar yfir tilhögun keppninnar og hvernig hún verður dæmd. Í undirbúningshópnum eru meðal annarra: Stjórn Félags tamningamanna (Sigrún Ólafsdóttir, Guðmundur Arnarsson, Camilla Petra Sigurðardóttir, Marteinn Njálsson, Sigvaldi Lárus Guðmundsson, Elvar Einarsson, Karen E. B. Woodrow) , Trausti Þór Guðmundsson, Benedikt Líndal, Anton Níelsson, Sigurður Sæmundsson, Sigurður Sigurðarson, Guðmundur Björgvinsson, Hinrik Bragason, Gunnar Arnarson, Pjetur N Pjetursson, formaður Íþróttadómarafélagsins, Magnús Lárusson, Daníel Smárason og Jens Einarsson.

Nokkrir knapar sem boðin hefur verið þátttaka í mótinu hafa staðfest þátttöku og einnig hafa nokkrir knapar sem ekki eru á listanum en telja sig vera með vel þjálfaðan hest í verkefnið sótt um þátttöku. Hugsanlegt er að fjöldi keppenda verði takmarkaður og verður það þá tilkynnt fljótlega.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að fas og fótaburður telja til stiga á sama hátt og í hefðbundinni töltkeppni. Sem sagt: Flottir hestar eru líklegri til sigurs! Hins vegar verður lögð sérstök áhersla á að greina og dæma hvernig fasið er fengið fram; hvort hesturinn er slakur og í jafnvægi; hvort hesturinn er jafnsterkur og knapinn hafi stjórn á báðum hliðum hans; og hvort hesturinn svari hvetjandi og hamlandi ábendingum, næmur og sáttur.

Lýsing á Töltfiminni er birt í nýjast tölublaði Hestablaðsins og á www.hestabladid.is.