mánudagur, 24. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Töltfimi er ögrandi keppnisgrein

7. september 2012 kl. 10:04

Þessi fagri verðlaunagripur, Töltfimihornið, verður veittur sigurvegaranum á fyrsta mótinu í Töltfimi. Hornið er farandgripur og gefinn af Hestablaðinu.

Fjórtán áhugasamir reiðmenn og dómarar krufu Töltfimi FT og Hestablaðsins á bráðskemmtilegum fundi í Ölfushöllinni í gær.

Fjórtán áhugasamir reiðmenn og íþróttadómarar funduðu í Ölfushöllinni í gær um Töltfimi FT og Hestablaðsins. Form keppninnar var rætt í þaula og þrír knapar riðu prógrammið eins og það er sett upp núna. Ákveðið var að halda eitt til tvö lítil prufumót áður en blásið yrði til "alvörumóts" í Töltfiminni.

Allir á fundinum eru sammála um að hér sé um að ræða ögrandi keppnisform fyrir metnaðarfulla reiðmenn, en jafnfram skemmilega og áhorfendavæna hestasýningu. Ákveðið var að prufukeyra keppnina eins og hún er núna og verður það gert í næstu og þarnæstu viku. Fjöldi þátttakenda verður takmarkaður við tíu til tólf knapa til að byrja með.

Það kom í ljós um leið og keppnin var riðin að hér er um mjög vandasamt og krefjandi verkefni að ræða, bæði fyrir reiðmanninn og dómarana þar sem svo mörg atriði þarf að hafa í huga við hvert fótmál. Tvö verkefni af fjórum eru sýnu erfiðust; að ríða bauga, og síðan hægt safnað tölt þar sem knapinn verður að gefa tauminn sýnilega í tvær til þrjár hestlengdir án þess að hesturinn breyti hraða, takti og formi. Ákveðið var að þessi atriði hafi tvöfalt vægi í dómum.

Æfing í töltfiminni verður haldin á Skeiðvöllum í næstu viku og þar ætla nokkrir knapar og dómarar að bera saman bækur sínar. Tekið skal fram að hér er ekki um opna æfingu að ræða, en þeir sem hafa áhuga á að kynna sér Töltfimina betur og prófa að ríða hana undir leiðsögn dómara geta haft samband við Jens Einarsson í síma 862-7898.