þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tólf knapar fá bréf frá Fagráði

24. október 2011 kl. 15:20

Tólf knapar fá bréf frá Fagráði

Á haustfundi Hrossaræktarsambands Suðurlands sem haldinn var á Selfossi í síðustu viku flutti Guðlaugur Antonsson, hrossaræktarráðunautur, erindi þar sem hann gerði upp kynbótasýningar ársins. Þar kom m.a. fram að 18,9% hrossa sem komu úr braut í sumar voru með áverka á fótum eða munni.

Hlutfallið er svipað og í uppgjöri síðasta árs, en þá voru 18,2% hrossa skráð með áverka. Þó er þetta talsvert meira, segir Guðlaugur, þegar haft er í huga að í ár var ekki skráð í uppgjör ef hross tapaði skeifu eða hófhlíf en þess háttar skráningar voru með í uppgjörum fyrri ára.

Guðlaugur segir fjölgun áverka áhyggjuefni, þótt útkoman sé heldur betri en stundum á undanförnum áratug. „Engin ákvörðun hefur verið tekin um strangari reglur en auðvitað er ekki ásættanlegt til lengdar að málin skuli vera með þessum hætti,“ segir hann en tólf knöpum mun berast bréf frá Fagráði í hrossarækt vegna þess að 25-55% sýninga þeirra voru skráð í áverkaskrá. Knaparnir sýndu 10-98 sýningar á árinu.

„Við sendum út bréf í fyrra til nokkurra knapa sem skáru sig úr með að vera með meiri fjölda áverka heldur en aðrir knapar. Sami háttur verður hafður á í ár. Ef ákveðnir knapar fara að verða þarna með reglulega áskrift ár eftir ár, verður að mínu mati að grípa til hertra aðgerða gegn þeim,“ segir Guðlaugur.