þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Togast á um tunguboga

16. apríl 2014 kl. 16:14

Niðurstöður ítarlegar greiningar gagna frá heilbrigðisskoðunum keppnishesta á LM og ÍM árið 2012 sýnir að fylgni er á milli áverka á kjálkabeini á tannlausa bilinu og notkun á stangamélum með tunguboga. Hesturinn á myndinni tengist ekki greininni.

Hvetja til banns við notkun á stangarmélum með tunguboga.

Niðurstöður ítarlegar greiningar gagna frá heilbrigðisskoðunum keppnishesta á LM og ÍM árið 2012 sýnir að fylgni er á milli áverka á kjálkabeini á tannlausa bilinu og notkun á stangamélum með tunguboga. Samkvæmt niðurstöðum fjölþátta greiningar eru 75falt meiri líkur á skaða við notkun þeirra en annarra méla. Hvatt er til banns við við notkun á búnaðinum, þar sem þau stangast á við dýraverndarlög.

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, fór yfir niðurstöður greiningarinnar á opnum fundi um velferð íslenska hestsins þann 9. apríl sl. en Þorvaldur Kristjánsson kennari og kynbótadómari, framkvæmdi fjölþátta tölfræðigreiningu á gögnum heilbrigðisskoðananna "Klár í keppni." Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir fór yfir lagaumhverfi nýrra dýraverndarlaga sem tóku gildi um síðustu áramót.

Niðurstöður greiningarinnar er sú að hross sem riðið er við stangarmél með tunguboga er í mun meiri áhættu á áverka á kjálkabeini en ef því væri riðið við annan mélabúnað.

Rannsóknin náði til 77 hrossa þar sem 46 var riðið við stangarmél með tunguboga og 33 var riðið við hringamél eða venjulegar stangir. Í hópnum sem riðið var við tunguboga var tíðni áverka á kjálkabeini 51% en 4% í hinum hópnum. Þetta er mjög skýr og hámarktækur munur. Svokallað p-gildi sem sýnir fram á marktækni niðurstaðna var 0.009 sem segir manni að það eru 0.9% líkur á því að þessar niðurstöður séu fengnar fyrir tilviljun og það segir manni einnig að þetta eru nægilega stórir samanburðarhópar. Þannig að það er hægt að leggja trúnað á þessar niðurstöður. Þessi vísindalega greining sýnir jafnframt að 75falt meiri áhætta eru á því að mélabúnaðurinn skaði hesta en önnur mél og engin knapaáhrif voru í þessum gögnum. Það brýtur í bága við 17. gr. dýraverndalaga sem segir að sá sem þjálfar dýr, notar þau í keppni og sýningar á að tryggja að þau séu ekki markvisst beitt meðferð sem veldur þeim skaða eða ótta.

Samtök hestamanna voru hvött að fara að lögum og lagt var til að stangarmél með tunguboga verði bönnuð.

Hvetja FEIF til að banna búnaðinn

Þessar niðurstöður hafa verið kynntar á  stjórnarfundum LH og í Fagráði í hrossarækt sem hafa brugðist við á ólíkan hátt.

Stjórn Landssambands hestamanna gengst við niðurstöðunum, telur ástandið óviðunandi og hyggst bregðast við með tillögu til FEIF, þar sem hvatt er til að setja búnaðinn á bannlista.

Skiptar skoðanir voru hins vegar á meðal fagráðsmanna á fundi 24. mars. Einhverjum finnst ekki horft nægjanlega heildstætt á vandamálið með því að banna notkun á einstökum búnaði. "Meirihluti fagráðsmanna er sitja fundinn telja að alltaf hljóti að vera vænlegri leið að horfa á markmiðið í stærra samhengi sem í þessu tilfelli sé að koma í veg fyrir áverka í munni hrossa," segir í fundargerð.

Fagráð telur rétt að skerpa á því hvernig brugðist verði við þega áverka finnist á hrossum og undantekningalaust vísa þeim frá sýningu."Sú aðgerð hljóti að skila meiri árangri en bann á einstökum tegundum búnaðar. Þó vissulega sýni niðurstöður athugunarinnar að umrædd tegund méla auki líkur á sárum og áverkum í munni séu einnig aðrar orsakir fyrir þeim sem ekki megi horfa framhjá," segir ennfremur. Þó hljóti að vera erfitt að horfa framhjá afgerandi niðurstöðum vísindalegra  rannsókna, sem sýnir að þessi ákveðni búnaður veldur skaða.

Kerfislægt vandamál

Í 17. grein laga um dýravelferð segir að hver "sá sem þjálfar dýr, notar þau í keppni og sýningar eða á annan hátt á að tryggja að þau:
a. hafi til þess líkamlegt heilbrigði og hafi hlotið viðeigandi þjálfun,
b. hafi ekki verið meðhöndluð með lyfjum sem deyfa sjúkdómseinkenni eða auka afkastagetu þannig að það samræmist ekki velferð þeirra,
c. séu ekki markvisst beitt meðferð sem veldur þeim skaða eða ótta."

Notkun stangarméla með tunguboga í keppni fellur undir c. hluta þessara laga, samkvæmt greiningunni.

„Þarna segir í raun að ef þú skaðar hross í munni í þjálfun eða keppni, þá bannar þessi grein það. Nýju lögin eru skýrari. Okkur ber að taka á slíkum málum. Við höfum meira land undir fótum til að byggja okkar ákvarðanir á," segir Sigurborg Daðadóttir í viðtali við Eiðfaxa.

"Heilbrigðisskoðunin leiddi í ljós að áverkar í munni keppnishesta er kerfislægt vandamál, þ.e. sýningar sem leiða til áverka eru verðlaunaðar. Margt bendir til að þar komi röng líkamsbeiting hestanna við sögu, svo sem þvingaður höfuðburður, ofreising og stíft bak en mélin ráða hins vegar miklu um það hvar í munninum áverkarnir verða og hversu miklum sársauka þeir valda. Hægt er að rekja áverka á tannlausa bilinu til notkunar á stangarmélum með tunguboga þar sem tungunni er gert ómögulegt að taka við þrýstingnum af taumtakinu og átakið kemur á tannlausa bilið. Slíkir áverkar valda miklum sársauka þar sem mjög lítið hold er á þessu svæði, stutt í bein og beinhimnubólga er sársaukafull. Kerfislæg vandamál leysast ekki með því að vísa einum og einum knapa úr keppni. Það þarf að taka á grunnorsökunum og leysa vandamálið þannig fyrir fullt og allt. Ef hestamenn halda áfram að nota þessi stangarmél og framkalla þessa áverka endar það með því að hið opinbera verður að taka í taumana og t.d. banna þessa tegund af mélum. Hestamenn ættu einfaldlega að hætta að nota þessi mél, þá ætti málið að vera leyst varðandi alvarlega áverka á tannlausa bilinu," segir Sigurborg í viðtalinu sem má nálgast í 2. tbl. Eiðfaxa.