laugardagur, 15. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Titringur vegna Landsmóts 2011

Jens Einarsson
28. júní 2010 kl. 11:25

Austurríkismenn afar óhressir

Titringur er í hestasamfélaginu hér á landi og innan FEIF vegna fyrirhugaðs Landsmóts hestamanna í Skagafirði 2011. Austurríkismenn, sem eru að undirbúa heimsmeistaramót á næsta ári, eru sagðir afar óhressir með þessa hugmynd og hafa látið í veðri vaka að þeir muni hætta við að halda mótið ef Íslendingar standi við ákvörðum sína.

Annaðhvort HM eða LM

Þegar ákvörðun var tekin um að fella niður LM2010 á Vindheimamelum var tekin sú stefna að halda Landsmót þar að ári. Til að byrja með tók stjórn FEIF jákvætt í málið, enda ljóst að Íslendingar eru í mjög bágri stöðu vegna hrossapestarinnar. Austurríkismenn telja hins vegar að færri muni sækja HM2011 fyrir vikið og hætta sé á að tap verði á mótinu. Sem FEIF mun raunar bera að mestu leyti þegar upp verður staðið. Að sama skapi er líklegt að aðsókn á Landsmót verði minni en venjulega, þar sem fjölmargir hestamenn, bæði hér heima og í útlöndum, standa frammi fyrir vali: Annaðhvort HM eða LM!

Ferðaþjónustan kallar á dagsetningu

Oddvitar hestamennskunnar hér á landi eru nú að meta stöðuna. Endanleg ákvörðun snertir marga og ekki auðvelt að meta hvaða niðurstaða er skynsamlegust til lengri tíma litið. Ef heildarhagsmunir eru hafðir að leiðarljósi. Ekki er hægt að draga ákvörðun um LM2011 mikið lengur, því ferðaþjónustan, og hestafólk um allan heim, kallar á dagsetningar. Einnig ræktunarmenn sem þurfa að ákveða hvort þeir halda hryssum sínum í ár eða þjálfa þær fyrir sýningar næsta sumar.