fimmtudagur, 22. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Tilkynning frá formanni LH, Haraldi Þórarinssyni

8. mars 2010 kl. 14:54

Tilkynning frá formanni LH, Haraldi Þórarinssyni

Vegna fréttatilkynningar frá Stíganda,Léttfeta, Geysi og Sindra vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri. 

Að morgni fimmtudagsins 4. mars hafði formaður Stíganda í Skagafirði samband við  skrifstofu LH og bað um fund með stjórn LH fyrir félögin í Skagafirði.  Ekki var greint frá fundarefni.  Í framhaldi hafði skrifstofa LH samband við undirritaðan  til að kanna hvort ég gæti hitt formenn hestamannafélagana í Skagafirði föstudaginn 5. mars, kl. 15:30. Kvaðst undirritaður eiga erfitt með það, þar sem ákveðið hafði verið að haldinn yrði fundur  með  hestamannafélaginu Fáki þennan sama dag, þar sem átti að láta reyna á hvort samningar tækjust um Landsmót í Reykjavík 2012 sbr. samþykkt stjórnar LH. Ekki var þá ljóst hvenær dagsins sá fundurinn  yrði haldinn, en tjáði ég starfsfólki LH að við skyldum stefna á fund með Skagfirðingum.

Um tíuleytið að kvöldi 4. mars ræddi undirritaður við formann Stíganda í síma og sagði henni að fundur með Skagfirðingum væri í óvissu þar sem ég gæti ekki skipulagt minn fundartíma þann 5. mars vegna væntanlegs fundar með Fáki.  Óskaði ég eftir öðrum fundartíma með þeim og spurði um leið hvert fundarefnið væri.

Tjáði formaður Stíganda mér að erindið væri afhending undirskriftalista og jafnframt að félagar þeirra sunnan heiða myndu  mæta. Kom undirritaður með þá tillögu að fulltrúar þessara hestamannafélaga myndu mæta á stjórnarfund hjá LH sem fyrirhugaður væri á fimmtudag eða föstudag.  Sá tími hentaði ekki formanninum.  Ákváðum við þá að halda fundinn þriðjudaginn 9. mars og bauð ég þeim, f.h. stjórnar LH til hádegisverðar og að í kjölfarið yrði fundað kl.13:00. Þeirri ákvörðun hefur enn ekki verið breytt svo mér sé kunnugt. 

Undirritaður vill taka skýrt fram að miðað við þann stutta fyrirvara sem hér um ræðir þar sem óskað var eftir fundi með stjórn LH, með sólarhrings fyrirvara, tel ég mig hafa lagt mig allan fram um að leysa úr óskum félaga okkar hvað það varðar og vann að því af heilindum.

Með kveðju og von um að þetta varpi ljósi á mína hlið málsins,

 

Haraldur Þórarinsson formaður LH. 

www.lhhestar.is