miðvikudagur, 26. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Til Danaveldis í slóð föðurins

Jens Einarsson
5. október 2009 kl. 09:45

Hnokki frá Fellskoti farinn utan

Hinn fagri og léttbyggði stóðhestur Hnokki frá Fellskoti hefur yfirgefið fósturjörðina og eignast nýtt heimili í Danmörku. Kaupandi er Mads Jörgensen. Hnokki hefur verið í umsjá Hinriks Bragasonar og Huldu Gústafsdóttur á Árbakka undanfarin tvö ár og er í hópi álitlegustu stóðhesta.

Svaðastaðaætt og Ófeigur

Ættir Hnokka eru að mestu Svaðastaða, með örlítilli hornfirskri og sunnlenskri blöndu. Faðir hans er Hrynjandi frá Hrepphólum, sem einnig var seldur til Danmerkur og drapst þar. Hrynjandi hefur gefið léttbyggð og falleg hross. Móðir Hnokka er Hnota frá Fellskoti (8,07), Ófeigsdóttir frá Flugumýri. Hnota á sjö skráð afkvæmi, fjögur á tamningaraldri. Tvö hafa verið sýnd, bæði með fyrstu verðlaun.

Hnokki var sýndur fjögra vetra og fékk þá 8,27 í aðaleinkunn. Á Landsmóti í fyrra fékk hann 8,52 í aðaleinkunn, þá sex vetra. Hann fékk 9,0 fyrir háls og herðar, bak og lend, tölt, brokk, og fegurð. Hnokki tók þátt í íþróttakeppni síðastliðinn vetur og sýndi afbragðs hæfileika á því sviði. Hefur flest til að bera sem prýðir góðan keppnishest.

Frjósemin Akkilesarhæll

Frjósemin hefur hins vegar verið Akkilesarhæll Hnokka, sem á sér skýringu í hegðunarvandamáli þegar hann gengur frjáls í hryssum. Aðeins 27 afkvæmi eru skráð í WorldFeng. Trúlega á þó eftir að skrá fleiri sem fæddust á þessu ári. Á næsta ári er hins vegar von á stórum árgangi undan honum. Allar hryssur sem komu til hestsins í vor og sumar voru handleiddar á húsi og yfir sjötíu hryssur er með staðfest fyl. Það virðist því ekkert vera að sæðinu í Hnokka þótt „feimni“ hái honum þegar úr mörgu er að velja.