fimmtudagur, 19. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þýskir á faraldsfæti

2. apríl 2013 kl. 10:13

Þýskir á faraldsfæti

Sextán manna hópur hrossaræktenda, tamningamanna og reiðkennara frá Þýskalandi dvaldi á Íslandi yfir páskana. Hópurinn heimsótti tuttugu hrossaræktarbú á Suðurlandi og í Skagafirði. Skipuleggjandi og fararstjóri var Petra Mazetti, sem sem búsett er á Íslandi.

Jens Einarsson

„Flestir í hópnum eru tengdir hrossabúinu Wiesenhof á einhvern hátt, hafa ýmist unnið þar, verið þar á námskeiðum og svo framvegis. Tilgangur ferðalagsins var einfaldlega sá að heimsækja hrossaræktarbú og kynnast íslenskum hrossaræktendum. Það var allsstaðar tekið mjög vel á móti okkur og fólk lagði sig fram í að segja sinni starfssemi og ræktun, þannig að þetta var heilmikil fræðsla í leiðinni, fyrir utan hve þetta var skemmtilegt. Það sem er þó gagnlegast við ferðir sem þessar eru þau persónulegu tengsl sem myndast. Ég hefði mjög gaman að því skipuleggja ferðir til útlanda fyrir íslenska ræktendur.

Svo verð ég sérstaklega að nefna að Einar Öder Magnússon og Svanhvít Kristjánsdóttir í Halakoti komu með okkur norður í Skagafjörð og fræddu okkur um öll hrossabú að fornu og nýju sem á leið okkur urðu. Fólkið var óskaplega ánægt með þá fræðslu og mikill fengur að fá fólk með í för með svo víðtæka þekkingu á hrossarækt og hestamennsku,“ segir Petra.

Af þeim búum sem heimsótt voru má nefna hrossaræktarbúið á Hólum, Flugmýri, Vatnsleysu og hið forna höfuðból og hrossaræktarbú Kolkuós, sem var mikil upplifun fyrir flesta í hópnum. Á Suðurlandi var farið í Þúfu, Ármót, Skeiðvelli, Fet og Auðsholtshjáeigu, svo einhver bú séu nefnd. Til að krydda ferðina var farið á Stóðhestaveislur, bæði norðan heiða og sunnan.