þriðjudagur, 23. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

"Þú lýstir upp heiminn fyrir okkur öllum"

odinn@eidfaxi.is
29. nóvember 2013 kl. 23:34

Útför Eva María - mynd HMÓ

Eva María Þorvarðardóttir borin til grafar í dag.

Í dag var borin til grafar Eva María Þorvarðardóttir hestakona, en hún átti að baki farsælan feril í hestaíþróttum. Útför hennar fór fram frá Grafarvogskirkju.

Eva María Þorvarðardóttir fæddist í Reykjavík 22. júlí 1992. Hún lést 16. nóvember 2013.

Foreldrar hennar eru Lilja Guðmundsdóttir, og Þorvarður Helgason.

Fjölmenni var við útförina og var heiðursvörður við inngang kirkjunar þar sem fjórir vindóttir hestar stóðu vörð. Tveir þessara hesta eru úr ræktun Evu Maríu.

Að henni lokinni stóðu Fáksfélagar fyrir erfidrykkju. 

Vottum við vinum hennar og ættingjum samúð okkar.

Fjölmargir hafa minnst hennar í dag og undanfarna daga á samfélagsmiðlum en meðal þess sem þar hefur verið skrifað er:

"Skemmtilegar minningar er eitthvað sem við munum alltaf geyma, varðveita og hugsa um. Megi guðs englar vaka yfir þér elsku vinkona."

"Í dag er mér efst í huga þakklæti ! Takk allir sem tóku höndum saman í dag og kvöddu Evu Maríu."

"Hún var mikill dýravinur og náttúrubarn. Algjörlega óhrædd og með góða tilfinningu fyrir hestum. Hún var lagði mikla natni við hestamennskuna, var ofboðslega dugleg og áhugasöm. Hestarnir veittu henni mikla gleði og í kringum þá held ég að hún hafi notið sín hvað best, fundið raunverulega hamingju og gleði. Það er stórt skarð höggvið í lengjuna okkar í C-tröðinni og í félagið okkar Fák í Víðidal, sár sem líklegast mun aldrei gróa."

"Fingurnir stirðna við lyklaborðið, munnurinn þornar og augun vökna. Það er bara svo ótrúlega ótímabært að rita niður minningarorð um hana Evu Maríu okkar."

"Mikið var þetta falleg stund, full kirkja af öllum þeim sem þóttu vænt um Evuna okkar. Mikið er maður stoltur af því að hafa kynnst þessum gleðigjafa. Þú lýstir upp heiminn fyrir okkur öllum. Orð fá ekki lýst hvað ég gæfi fyrir eina stund með þér og hlæja með þér. óó þessi hlátur, ég heyri hann enn."

Lokaspilið var lagið Vertu þú sjálfur, en það var söngvarinn Páll Rósinkranz sem flutti það. Fannst fólki þetta lag eiga vel við.

Vertu þú sjálfur, 
gerðu það sem þú villt.
Vertu þú sjálfur, 
eins og þú ert.
Láttu það flakka, 
dansaðu í vindinum.
Faðmaðu heiminn, 
elskaðu.

Farðu alla leið.
Va-bam-a-lú-ma-ba-ba-bei.
Farðu alla leið,
allt til enda, alla leið.

Vertu þú, 
þú sjálfur.
Gerðu það sem þú vilt.
Jamm og jive 
og sveifla.
Honky tonk og 
hnykkurinn.

Farðu alla leið.
Va-bam-a-lú-ma-ba-ba-bei.
Farðu alla leið,
allt til enda, alla leið.