þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þrumandi gleði

11. apríl 2014 kl. 16:36

Þrumufleygur frá Álfhólum. Ljósm.: Hrefna María Ómarsdóttir

Stóðhestaveislan

Reikna má með að allt verði vaðandi í folum á Stóðhestaveislunni á morgun, en það stefnir í þrumandi gleði þar sem Þrumufleygur frá Álfhólum mætir í ævintýralegu stuði. Þá mætir Daggar frá Einhamri, einn af topp tíu 4v hestum síðasta árs og hinn síungi Elli Sig ætlar að mæta með Lektor frá Ytra-Dalsgerði. Frá Horni koma þeir Hljómur og Flygill og Lydíusonurinn Lexus frá Vatnsleysu mætir í fantaformi. Hákon frá Dallandi, Farsæll frá Litla-Garði og Magni frá Hólum mæta og Kristjón bóndi á Kvistum mætir sjálfur með Ketil Naglason frá Kvistum. Þá koma Bragur frá Ytri-Hóli, Hraunar frá Svalbarðseyri og Hringur frá Gunnarsstöðum, enn einn af topp 4v hestunum í fyrra, sem og Laxnes frá Lambanesi sem telst til þess hóps líka.  Þá má líka nefna þá Hreyfil frá Vorsabæ, Flóka frá Flekkudal, Ás frá Hofsstöðum og Vála frá Efra-Langholti, allt spennandi hestar á uppleið. Hrynur frá Hrísdal hefur vakið lukku og hann kemur fram á veislunni, sem og Kristall frá Auðsholtshjáleigu og stórstjarnan Arion frá Eystra-Fróðholti. Svo er aldrei að vita nema eitthvað óvænt bætist við þegar á hólminn er komið – það er alla vega alveg ljóst að veisluhöldin í Fákaseli annað kvöld verða af sverustu sort!
Stóðhestaveislan er hápunktur viðburðarins Icelandic Horse Expo sem staðið hefur yfir alla þessa viku og gengið frábærlega. Forsala er í fullum gangi hjá Baldvini og Þorvaldi á Selfossi, Top Reiter, Líflandi, Hestum og Mönnum og Skalla Ögurhvarfi á höfuðborgarsvæðinu. Miðaverð er kr. 3.500 í forsölu, en 4.000 við innganginn, Stóðhestabókin fylgir hverjum miða. 

Á veislunni verða jafnframt boðnir upp folatollar til styrktar góðgerðarmálefni ársins í ár, sem er reiðþjálfun fatlaðra hjá Hestamannafélaginu Herði, og miðarnir í stóðhestahappdrættinu til styrktar sama málefni fást á staðnum. Þá hefur listakonan Helma málað mynd sem hægt verður að bjóða í næstu vikurnar og rennur ágóðinn einnig til styrktarmálefnisins. 
Stóðhestaveislan er viðburður sem enginn áhugamaður um hrossarækt má láta framhjá sér fara – sjáumst í Fákaseli!

 
Myndband: Þrumufleygur á æfingu fyrir veisluna