sunnudagur, 16. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þriggja milljón króna styrkur til LAUF

2. júlí 2012 kl. 13:19

Þriggja milljón króna styrkur til LAUF

Fyrr í vetur stóð Hrossarækt.is fyrir tveimur stóðhestasýningum bæði á norður- og suðurlandi. Á þessum sýningum voru boðnir upp folatollar og einnig seldir happdrættismiðar en ágóðinn af þessu tvennu átti að renna til LAUF (Félag flogaveikra). Hrossarækt.is afhenti styrkinn síðastliðin laugardag á Landsmótinu en upphæðin var rúmar þrjár milljónir. Það voru fulltrúar Hrossaræktar.is sem afhentu stykinn en Brynhildur Arthúrsdóttir, formaður Lauf, ásamt tveimur ungum félagsmönnum, þeim Kristínu Hrefnu Halldórsdóttur og Trausta Óskarssyni, tók við styrknum. Einnig voru þeir Álfur frá Selfossi og Arion frá Eystra-Fróðholti viðstaddir afhendinguna.

Í tilkynningu frá gefendum segir: „Hrossarækt.is, sem er hópur áhugafólks um hrossarækt, stóð í vor fyrir happdrætti og uppboðum á folatollum til styrktar góðu málefni og að þessu sinni varð LAUF félag flogaveikra fyrir valinu. Hrossarækt.is afhenti slíkan styrk í fyrsta skipti í fyrra á LM þegar rúmlega tvær milljónir söfnuðust til handa Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna, en í ár rennur styrkurinn til uppbyggingar- og þróunar íþrótta- og tómstundastarfs flogaveikra barna og ungmenna. Hrossaræktendur hafa frá byrjun tekið verkefninu mjög vel og í ár var mikill fjöldi spennandi folatolla í boði í happdrættinu, auk þess sem boðnir voru upp tollar undir Arion frá Eystra-Fróðholti, Álf frá Selfossi og Spuna frá Vesturkoti á Stóðhestaveislu í Ölfuhöll sl. vor. Skemmst er frá því að segja að hestamenn tóku frábærlega við málefninu og alls hafa safnast kr. 3.153.000“