miðvikudagur, 24. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þriðja mótið í Hófadyns mótaröðinni

21. mars 2014 kl. 19:26

Reynir Örn Pálmason fékk hæstu einkunn á fyrsta prufumóti í Töltfimi sem haldin var á Skeiðvöllum.

Töltfimi og skeið

Þriðja mótið í Hófadyns mótaröðinni verður haldið í Rangárhöllinni miðvikudaginn 27. mars og hefst klukkan 18:00. Keppnisgreinar að þessu sinni eru töltfimi og skeið í gegnum höllina. Skráning fer fram á heimasíðu Geysis, hmfgeysir.is. Skráningu lýkur kl 23:59 mánudagskvöldið 24.mars.
Þegar skráð er í töltfimi skal velja fimi keppni A og þegar skráð er í skeiðið á að velja skeið 100m.

Einungis verður riðið ein umferð í töltfimini og raðast keppendur miðað við árangur í forkeppni.Tveir sprettir verða í skeiðinu.

Vegleg verðlaun er í boði fyrir fyrsta sæti í hverri grein og dregið verður úr áhorfenda happadrætti að vanda.

 

 

TÖLTFIMI

Lýsing á verkefninu:

Sú útfærsla á töltfimi sem hér er kynnt er er byggð á hugmynd Reynis heitins Aðalsteinssonar um útvíkkun á núverandi töltkeppni, sem gengur út á að gera meiri kröfur til reiðmannsins sem þjálfara og hestsins sem þjálfaðs íþróttahests. Það er meðal annars gert með því að taka af reiðmanninum það tæki að geta riðið beint og stuðst við vegg, grindverk eða línu alla keppnina. Og að riðnir eru baugar á tölti.

Völlurinn er átta. Riðnar eru fjórar áttur. Reiðleiðir eru afmarkaðar með fyrirferðalitlum merkingum, blómaskreytingum eða sagi/spæni, þannig að hestinum stafi enginn ótti af þeim, né að knapinn hafi stuðning af þeim.

Fyrsta átta/Frjáls í fasi: 
Markmið æfingarinnar að sýna að hesturinn gangi fram fús og djarfur með spyrnu og framtaki. Hann sé í jafnvægi á töltinu, á þeim hraða og á þeirri sporaslóð sem knapinn velur, og hafi taktöryggi.


Byrjað er á skammhlið næst innkomu vallar. Riðið er á milliferð (plús/mínus) á þeim hraða þar sem knapa og hesti líður best. Taumhaldið skal vera létt, höfuð- og líkamsburður frjáls og spennulaus.  Sóst er eftir frjálsu fasi, góðum takti, mýkt, fjaðurmagni og jafnvægi. Það gefur hærri einkunn ef knapi ríður eftir miðju brautar á langhliðum og á ytri sporaslóð í beygjum og á skammhliðum.. Það er að segja: Það sé augljóst að knapinn geti valið sér sporaslóð á vellinum. Hesturinn sé beinn á beinu brautunum og rétt sveigður í beygjum.

Önnur átta/Riðnir baugar: 
Markmið æfingarinnar er að knapinn sýni fram á að hann hafi vald á báðum hliðum hestsins. Hesturinn sé jafnsterkur og gangi í jafnvægi, rétt sveigður á tölti, í réttum takti á báðar hendur. Ekki eru gerðar kröfur um ítrasta höfuð- og fótaburð, en meira um “jafnan vinnuhraða” (arbeitstempo) og takt.


Þegar fyrstu áttu lýkur hefur knapinn frjálst val um hraða þar til hann kemur að miðju vallar þar sem langhliðar krossast, en þá skal hesturinn vera komin á hægt tölt (vinnuhraða). Ekki er beðið um hámarks söfnun og fas. Þegar komið er að miðju vallar þar sem reiðleiðirnar skerast skulu riðnir baugar (8 metrar í þvermál) til beggja handa eftir mörkuðum reiðleiðum. Baugarnir skulu riðnir þannig að knapinn byrjar á sömu hönd og hann reið beygjuna á undan. Riðnir skulu tveir baugar til hvorrar handar, þannig að heilum baug sé lokið (annars er ekki um baug að ræða, heldur hálfa áttu). Hesturinn skal vera rétt sveigður, sáttur, mjúkur og á réttum takti. Eftir seinni baug ríður knapinn áfram þá reiðleið sem hann hóf á annarri áttu og að næstu skammlið.

Þriðja átta/Hraðabreytingar:
Markmið æfingarinnar er að knapi sýni fram á að hesturinn svari hvetjandi og hamlandi ábendingum spennulaus, mjúkur og sáttur, og sé sáttur og eftirgefanlegur í beisli. Hann gangi fús fram, lengi og stækki skrefin í upphröðun án þess að flýta sér, og hægi niður með því að kreppa afturpartinn og lyfta baki og herðum.


Riðið frá miðri skammhlið á hægu tölti. Á beinu brautinni, til hvorrar handar, eru riðnar hraðabreytingar. 
Upphröðun skal vera með mjúkum stíganda þar sem þar sem aðalháhersla er á takt og mýkt. Hesturinn sé slakur, en jafnframt fús, fasmikill og frjáls. Riðið er upp á góða milliferð. Hesturinn sé ekki kominn á mestu ferð fyrr en á miðri langhlið og þá byrjar knapinn að hægja niður. 
Niðurhægin skal vera með mjúkum hníganda þar sem aðalhersla er á takt og mýkt. Mikil áhersla er lögð á að knapinn geti sýnt fram á að niðurhægingin fari að mestu fram eftir ábendingum frá sæti og/eða rödd, en sé við taum, eftirgefanlegur og mjúkur í hálsi og hnakka. Hesturinn skal vera kominn á hægt tölt fyrir beygju.

Fjórða átta/Hægt (safnað) tölt
Markmið æfingarinnar er að knapi sýni fram á að hesturinn sé kominn með fullan styrk á hægu tölti og geti gengið sjálfberandi á réttum takti, spennulaus og dillandi, sáttur í beisli í fallegum höfuðburði, sem hæfir sköpulagi og getu hestsins. Knapinn hafi vald á báðum hliðum hestsins og geti valið sér sporaslóð á brautinni. Hesturinn gangi beinn á langhliðum, en rétt sveigður í beygjum.

Æfingin byrjar á miðju skammhliðar. Knapinn má hægja niður á fet úr æfingunni á undan, ríða út í beygju og skipta um hönd og undirbúa hestinn fyrir hægt, "safnað" tölt. Riðið er eins hægt og hesturinn hefur eiginleika til, án þess að það bitni á hreinum takti, mýkt og hrynjanda. Sóst er eftir að samspil knapa og hests kristallist í eftirgjöf og mýkt. Áhersla er lögð á að taumhald sé létt, hesturinn sé eftirgefanlegur og mjúkur í hálsi og hnakka, lyfti baki og herðum, og beri sig uppi með afturparinum. 

Skylduæfing á fjórðu áttu: Á hvorri langhlið skal knapinn gefa greinilega eftir tauminn í tvær til fjórar hestlengdir þannig að greinilegt sé að hesturinn beri sig uppi sjálfur. Því lengur/oftar sem knapinn gefur tauminn án þess að hestinum fipist taktur og/eða missi formið, því hærri einkunn.