sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þrettán íslenskar kvikmyndastjörnur-

19. október 2011 kl. 15:23

Þrettán íslenskar kvikmyndastjörnur-

Í Fréttablaði dagsins er sagt frá því að íslenskir hestar komi talsvert við sögu í kvikmyndinni Hobbitinn sem kemur í kvikmyndahús á næsta ári.

Samkvæmt fréttinni eru þrettán íslenskir hestar notaðir við tökur sem reiðskjótar söguhetjanna á leið þeirra frá Hobbitatúni til Myrkviðar:

„Útlit íslenska hestsins, sem safnar þykkum vetrarfeldi um vetrarmánuðina, var eitt af því sem vakti áhuga kvikmyndagerðarmannanna," segir Cali Madincea hjá New Line Cinema sem framleiðir myndina. „Annar mikilvægur þáttur við íslenska hestinn er þrek hans og styrkur enda getur hann borið fullorðið fólk allt að 120 kílóum," segir hann og bætir við að töltið hafi einnig heillað. 
„Þessi mjúka gangtegund skilar þeim hratt áfram, sem hjálpar leikurunum í fullum herklæðum að halda í við Gandálf sem ríður á stórum hesti." Ekki er öllum gefið að halda hesti á tölti og því var eigandi íslenskra hesta á Nýja-Sjálandi fenginn á tökustað til að kenna leikurunum handtökin,“ segir m.a. í grein Fréttablaðsins.

Kvikmyndin Hobbitinn er byggð á samnefndri skáldsögu J.R.R. Tolkien frá árinu 1937, og er hún undir greinanlegum áhrifum frá  íslenskum þjóðsögum enda er það aðdáun höfundar á íslensku tungumáli og bókmenntum þekkt. Gaman er því að hesturinn okkar kæri sé notaður við kvikmyndun á þessu dýrlega ævintýri, sem er eins og margir vita eins konar forsaga eða inngangur að hans frægasta verki, Hringadróttinssögu.