laugardagur, 21. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorvaldur hlaut fyrstu FT fjöðrina

7. febrúar 2014 kl. 11:06

Þorvaldur Árni og Stjarna frá Stóra-Hofi.

Knapi og hestur sem geisla af gleði.

Þorvaldur Árni Þorvaldsson hlaut fyrstu FT-fjöðrina fyrir frammistöðu sína í gæðingafimi Meistaradeildar í gærkvöldi. Félag tamingamanna ýtti þar með úr vör nýjum hvatningaverðlaunum fyrir fyrirmyndarreiðmennsku.

Samkvæmt Félagi tamningamanna þarf reiðmennska þess sem FT-fjöðrina hlýtur að einkennast af léttleika, lipurð og samspili þar sem saman fer einstök útgeislun og jafnvægi. Knapi og hestur geisla af lífskrafti og gleði.

Liggur til grundvallar vali á knapa samspil hans við hestinn. “Knapinn skal stýra hesti sínum af nærgætni, sanngirni og virðingu; vera sannur leiðtogi hans fremur en drottnari. Öryggi og heilbrigði hestsins sem og velferð hans skal ávallt vera í fyrirrúmi. Hesturinn á að sinna verkefni sínu af gleði; vera mjúkur og slakur - en jafnframt öruggur, áhugasamur og vakandi. Sýningin á að gefa þá tilfinningu að þar sé geislandi, jákvæð orka undir stjórn.”

Dómarar mótsins velja knapann hverju sinni í samvinnu við fulltrúa frá Félagi tamningamanna.