sunnudagur, 17. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorvaldur Árni fyrir dóm

odinn@eidfaxi.is
2. maí 2014 kl. 15:44

Stjarna frá Stóra-Hofi, knapi Þorvaldur Árni Þorvaldsson

Sýnið reyndist jákvætt.

Samkvæmt tilkynningu frá Landssambandi Hestamannafélag hefur komið í ljós að sýni það, sem tekið var úr Þorvaldi Árna Þorvaldssyni eftir töltkeppni Meistaradeildar, reyndist jákvætt.

Tveir knapar voru prófaðir eftir töltkeppnina, þau Þorvaldur Árni og Olil Amble, en samkvæmt heimildum Eiðfaxa fannst ekkert athugavert í sýni Olil og það sama á við um þá tvo knapa sem prófaðir voru þann 4. apríl þegar skeið og slaktaumatölt Meistaradeildar fór fram.

Í samtali við Örvar Arnarsson starfsmann lyfjaeftirlitsins staðfestir hann að málið sé komið til dómstóls ÍSÍ og líklega komi niðurstaða dómstólsins í lok maí eða byrjun júní.

Heyrst hefur að möguleg málsvörn í máli þessu geti verið sú að Meistaradeildin sé ekki löglegt íþróttamót og því nái lögsaga ÍSÍ ekki yfir þessi mót. Í þessu sambandi segir Örvar Arnarsson það ver skýrt í reglum lyfjanefndar að leyfilegt sé að prófa hvern þann iðkanda sem skráður sé í íþróttafélag sem aðili er að ÍSÍ og því hafi lögsaga lyfjanefndarinnar náði yfir keppendur á þessu móti.

Haft var eftir Kristni Skúlasyni formanni Meistaradeildarinnar að hún fari í einu og öllu eftir lögum og reglum Landssambands hestamannafélaga. Allir dómarar og framkvæmd mótsins sé eftir forskrift ÍSÍ og því blæs hann á að Meistaradeildin sé einhvers konar jaðarmót. Spurður um hvort árangur Þorvaldar í Meistaradeildinni verði þurrkaður út segir Kristinn ekkert hafa verið endanlega ákveðið enda liggi endanleg niðurstaða ekki fyrir. Jafnframt segir Kristinn að almennu verklagi ÍSÍ verði framfylgt og þá árangur þess móts þar sem jákvæða sýnið var tekið þurrkaður út og allur árangur eftir það.

Eiðfaxi hafði samband við Þorvald Árna vegna tilkynningarinnar. Hann sagði engar nýjar fréttir í henni og ætlaði ekki að tjá sig um atriði málsins fyrr en niðurstaða dóms ÍSÍ liggur fyrir.