laugardagur, 24. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

5. febrúar 2010 kl. 12:04

Þorri í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum

Stóðhesturinn Þorri frá Þúfu er kominn til vetrardvalar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal.  Þorri sem er brúnn að lit er undan Orra frá Þúfu og Hviðu frá Þúfu.  Þorri er á 21. vetri og er því árinu eldri en Fjölskyldu- og húsdýrgarðurinn en 20 ára afmæli garðsins verður fagnað á árinu.  Þorri hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti hestamanna árið 2002 og fyrsta sætið. 

Þorri er ekki fysti stóðhesturinn sem heimsækir garðinn því áður hafa margir gæðingar dvalið í Laugardalnum vetrarlangt.  Ástæða þess að stóðhestar eru fengnir í heimsókn er fyrst og fremst sú að eitt af markmiðum í rekstri Fjölskyldu- og húsdýragarðsins er að hafa til sýnis bæði kyn af hverri dýrategund og fjölbreytilega liti. 

Þorra virðist líka dvölin í hesthúsinu vel enda var hest- og fjárhúsið nýlega tekið til endurbóta og eru stíurnar rúmbetri og nútímalegri en áður.  Önnur hross í húsinu eru hryssurnar Hilda sem er bleikálótt, Dagvör grá og Gola jarpvindótt og geldingurinn Fylkir sem er móvindóttur og tvístjörnóttur.  Í fjárhúshlutanum býr hrúturinn Mjölnir ásamt sínum ám og hafurinn Klettur ásamt huðnunum sínum.