laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorgeir Guðlaugsson í Nornabæli

10. janúar 2013 kl. 17:31

Þorgeir Guðlaugsson, til hægri, við dómstörf á HM2009 í Sviss.

Heldur úti Fésbókarsíðunni Icelandic Horse History þar sem finna má ýmsan fróðleika á ensku um íslenska hestinn og sögu hans

Þorgeir Guðlaugsson í Hollandi hefur stofnað FaceBook síðuna: Icelandic Horse History. Þar birtir hann ýmsan fróðleik úr sögu íslenska hestsins á ensku. Mikill fengur er að þessu, því Þorgeir er einn öflugasti fræðimaður heims um íslenska hestinn og sögu hans. Hann var annar tveggja höfunda bókanna Hestar og menn, sem bókaforlagið Skjaldborg gaf út um árabil, og einn höfunda bókarinnar Íslenski hesturinn, stórvirki sem kom út fyrir nokkrum árum og sló í gegn.

Þorgeir er búsettur í Hollandi og hefur fest rætur þar. Kona hans er Els van der Meulen, sem bjó á Íslandi um tíma. Hann er kominn af frægum hestamönnum á Íslandi, barnabarn Þorgeirs í Gufunesi, sem var mikill íþróttamaður á sinni tíð, hvort sem var í frjálsum íþróttum, glímu eða hestamennsku. Þorgeir (yngri) er einnig hestamaður og er alþjóðlegur dómari í hestaíþróttum. Þorgeir heldur einnig úti heimasíðunni www.nornabaeli.nl og þar má einnig finna ýmsan fróðleik um íslensk hross.