mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þórður á engan sinn líka

1. júlí 2011 kl. 18:08

Þórður ríður Spuna á tölti við slakan taum.

Hálfnaður í hundraðið og aldrei verið betri

Þórður Þorgeirsson er knapi og reiðmaður LM2011, alla vega það sem af er. Frammistaða hans í kynbótasýningum mótsins er með algjörum eindæmum, bæði reiðmennskan og framkoma við menn og málleysingja. Næmi hans á hesta er með fádæmum og sýningarstjórar hafa sérstakt orð á á kurteisi hans, hjálpsemi og jákvæðu viðmóti.

Þórður sýndi mörg af hæst dæmdu kynbótahrossum mótsins, bæði hryssur og stóðhesta. Sérstaklega skal þar nefna hæst dæmda kynbótahross mótsins og hæst dæmda íslenska stóðhest heims, Spuna frá Vesturkoti sem hlaut 8,92 í aðaleinkunn á yfirlitssýningu í dag.

Það var hrein unun að sjá hvernig Þórður sótti tíu fyrir vilja og geðslag í einkunn fyrir Spuna með einstakri reiðmennsku, sem í senn var full af sjálfsöryggi og auðmýkt. Eftir frábæran skeiðsprett reið hann honum við slakan taum á greiðu og taktgóðu tölti. Fór annan sprett og hægði niður á fet með sérlegri yfirvegun. Fóru þar tveir góðir saman.

Þórður, sem nú er 47 ára og því nær hálfnaður í hundraðið, hefur engu tapað af næmi sínu og færni í hnakknum, nema síður sé. Hann á engan sinn líka sem sýningarknapi á kynbótahrossum. Enginn hefur riðið jafnmargar sýningar og hann á þessu ári og enginn hefur gert það jafn áreynslulaust hér á Vindheimamelum og hann.