laugardagur, 19. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þórarinn fær uppreisn í KS deildinni

4. mars 2011 kl. 10:19

Þórarinn ánægður eftir sigur í fimmgangi.

Efstur í fimmgangi á Þóru frá Prestsbæ

RÓSBERG ÓTTARSSON:

Það var mikil og góð stemming í Svaðastaðahöllinni þegar fram fór fimmgangur  í Meistaradeild Norðurlands. Góð hross og knapar voru mættir til leiks og eftirvæntingin hjá áhorfendum var mikil.

Segja má að Þórarinn Eymundsson hafi fengið uppreisn æru eftir dapra frammistöðu í fjórganginum fyrir hálfum mánuði. Hann stóð efstur eftir forkeppnina á Þóru frá Prestsbæ ásamt sigurvegaranum úr fjórgangskeppninni  Eyjólfi Þorsteinssyni á Ögra frá Baldurshaga, en báðir hlutu 6,80 í einkunn.

Þriðji  inn í A úrslit var hinn vaxandi knapi Hörður Óli Sæmundarson á Hreini frá Vatnsleysu með 6,53. Baldvin Ari Guðlaugsson á Sóldísi frá Akureyri og Bjarni Jónasson á Djásn frá Hnjúki voru jafnir með 6,47 og komust báðir í A úrslitin.

Það var mikil barátta fjögurra stóðhesta í B úrslitum en þar voru mættir Ólafur Magnússon á Ódeseifi frá Möðrufelli, Ísólfur Líndal á Borgari frá Strandarhjáleigu, Erlingur Ingvarsson á Blæ frá Torfunesi og Árni Björn Pálsson á Feldi frá Hæli. Ísólfur og Borgar tóku strax forustuna eftir töltið og héldu henni allan tímann og sigruðu B úrslitin.

Í A úrslitunum var baráttan hörð milli Þórarins og Eyjólfs. Eyjólfur var efstur eftir töltið. Eftir brokkið voru þeir jafnir en svo tók Eyjólfur forustuna aftur eftir fetið. Hann hélt forustunni fyrir síðustu greinina sem var skeiðið og spennan tók að magnast í húsinu. Þórarni tókst betur til í skeiðinu og náði að sigra með 7,10 en Eyjólfur kom næstur með 7,07. Þriðji var svo Bjarni á  Djásn með 6,95.

Þórarinn og Þóra, sem er eins og flestir vita undan Orra frá Þúfu og gæðingamóðurinni Þoku frá Hólum, hafa náð vel saman og það var engin breyting á í kvöld. Þó skyggði á kvöldið að Þórarinn hlaut áminningu frá yfirdómara fyrir að láta bíða eftir sér eftir að hann var kallaður til leiks inn í höllina. Þórarinn var engu að síður kátur í lok dags og ánægður með framgöngu Þóru. Aðspurður sagðist hann ekki vita hvað hann kæmi með í töltið eftir hálfan mánuð.

A - Úrslit
Þórarinn Eymundsson Þóra frá Prestsbæ 7,10
Eyjólfur Þorsteinsson Ögri frá Baldurshaga 7,07
Bjarni Jónasson Djásn frá Hnjúki  6,95
Hörður Óli Sæmundarson Hreinn frá Vatnsleysu 6,86
Ísólfur Líndal Borgar frá Strandarhjáleigu 6,86
Baldvin Ari Guðlaugsson Sóldís frá Akureyri 6,57

B – Úrslit
Ísólfur   Líndal Borgar frá Strandarhjáleigu 6,95
Erlingur Ingvarsson Blær frá Torfunesi 6,69
Ólafur Magnússon Ódeseifur frá Möðrufelli 6,31
Árni Björn Pálsson Feldur frá Hæli  6,07

Efstu knapar eftir tvær umferðir
1 Eyjólfur Þorsteinsson 18
2 Bjarni Jónasson 14
3 Þórarinn Eymundsson 11
4 Tryggvi Björnsson 8
5 Ólafur Magnússon 8
6 Hörður Óli Sæmundarson 8