miðvikudagur, 23. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þolinmæði og natni skilar meistaraárangri-

22. desember 2011 kl. 14:53

Þolinmæði og natni skilar meistaraárangri-

Fræðslufundur Félags tamningamanna sl. laugardagskvöld  heppnaðist með eindæmum vel að sögn Sigrúnar Ólafsdóttur formanns félagsins. „FT hefur undanfarin misseri staðið fyrir fræðsluviðburðum og sýnikennslum sem hafa notið mikilla vinsælda. Félagið telur það skyldu sína að kynna og breiða út góðar tamninga- og þjálfunaraðferðir og er þetta ein leið til þess.“

Fyrirlestrar Rúnu Einarsdóttur-Zingsheim og Jóhanns Skúlasonar voru ólíkir að upplagi og sýndu þau að nálgast má þjálfun á fjölbreyttan hátt þó markmiðin séu þau sömu.
 
Þannig byggðu aðferðir meistaranna á sameiginlegum áherslupunktum:
 
  • Léttleiki, næmni og mýkt var númer eitt, að hafa hestinn sé sáttan í beisli. 
  • Að hesturinn sé rólegur og viti á hverju hann á von. Þau sögðust bæði þjálfa mikið á rólegu nótunum og hægum gangi.
  • Þau gefa sér mikinn tíma fyrir hvern hest og fara aldrei fram úr sér í þjálfun. Ef eitthvað fer úrskeiðið þá snúa þau til baka og gefa sér enn meiri tíma í grunnvinnu.
„Rúna sagði okkur svo skemmtilega frá samvinnu hennar og gæðingsins Freys vom Nordsternhof. Samvinna þeirra hefur greinilega ekki alltaf verið dans á rósum og það er alveg ljóst að Freyr hefði ekki náð þessum árangri nema með þolinmóðan fagmann við stjórn. Samband þeirra virðist einstakt og árangurinn eftir því. Það var gaman að heyra hversu óhrædd Rúna er að vitna í „gömlu mennina“ eins og hún tók til orða, þá sérstaklega varðandi léttleika í beisli. Vitnaði hún þá meðal annars í það hversu föður hennar var tíðrætt um mikilvægi þess að hestar væru léttir í beisli. Í gamansömum tóni sagðist hún hafa verið orðin þreytt á endalausu ráðleggingum hans um það hversu mikilvæg góð beislisvinna væri en nú væri það hún sem að gæti aldrei lofað mikilvægi þess nóg. Rúna lagði mikið upp úr því að taumhringsvinna væri vandasöm, hún væri ekki að skila árangri nema til hennar væri vandað,“ segir Sigrún.
 
Góður undirbúningur lykill að velgengni
 
 „Jóhann lagði meira út frá þjálfunaraðferðum almennt í erindi sínu en einskorðaði sig ekki við einn hest eins og Rúna. Hann lagið mikið upp úr því að gefa hestinum nægan tíma og hafa þjálfunina fjölbreytta. Mikilvægt væri að knapinn væri leiðtogi en ekki harðstjóri, hesturinn ætti alltaf að líta á knapann sem vin og leiðtoga. Fyrsta skrefið er að geta riðið af stað á rólegu feti með langan taum til að ganga úr skugga um að hesturinn sé alveg rólegur og óhræddur. Mikilvægur punktur sem hann nefndi var að hann byrjar alltaf á því að fara yfir munn hestsins áður en hann járnar til að tryggja að hesturinn verði ekki fyrir skaða. Einnig var honum tíðrætt um  sársaukaminni en hestur man það alltaf ef að hann hefur upplifað mikinn sársauka og hræðist þær aðstæður sem hann tengir við sársaukann.  Jóhann lagði þunga áherslu á að töltkeppni væri ekki hraðakeppni heldur ætti það að vera gæði gangtegundar og mýkt sem að gæfu tölur. Aldrei væri hægt að ríða hestum í það þol sem til þyrfti til að ríða erfið úrslit í harðri keppni. Nýta þyrfti aðrar þjálfunaraðferðir svo sem með teymingum, rekstri, sundi og taumhringsvinnu.“
 
Hún segir að lærdómurinn sem draga mátti af málflutningi Rúnu og Jóhanns væri að þolinmæði þrautir vinni allar - því hún getur jafnvel skilað heimsmeistaratitlum.
 
„Bæði voru algjörlega sammála um að undirlag í flestum reiðhöllum á Íslandi væri alltof hart og margítrekuðu það í fyrirlestrum sínum hversu vont það væri fyrir hestinn. Varðandi lausnir á því hvernig minnka ætti áverka svo sem særindi í munni eða ágrip voru þau sammála um að besta leiðin væri að mæta betur undirbúinn til leiks. Allur undirbúningur og daglegt eftirlit er lykill að velgengni,“ segir Sigrún en í framhaldi veltu fundargestir því fyrir sér hvort það væri íslenskir knapar og þjálfar  væru með of mörg hross á sínum snærum og hvort og hvernig hægt væri að breyta því. 
 
Á nýju ár mun FT standa fyrir fleiri slíkum viðburðum og vonandi sem víðast um landi. Á döfinni er m.a. sýnikennsla með Olil Amble og von er á fleiri góðum gestum erlendis frá sem munu segja frá aðferðum sínum sem leitt hafa til árangurs og afreka á keppnisbrautum.
 
Hringteyming góð viðbót við almenna þjálfun
 
Eiðfaxi leitaði eftir skoðunum þriggja tamningamanna á fræðslukvöldinu:
 
Súsanna Ólafsdóttir:
Frábærtframtak hjá FT að fá þessa meistara að segja frá, þar sem við höfum svo oft verið stolt af þeim og árangrinum sem þau hafa náð fyrir Íslands hönd, en fæstir þekkja þau persónulega. Mest fannst mér gaman hvað þau voru einlæg og hógvær. Þau töluðu bæði um styrki og veikleika sína, aðferðir sem þau voru nýlega búin að læra og tileinka sér og aðrar sem þau vildu bæta sig í. 
 
Varðandi þjálfunaraðferðir fannst mér gott hvað þau lögðu mikla áherslu á grunnvinnu, umbun og slökun, einfaldar æfingar eins og að kyssa ístöð. Mér þótti góð áminning þegar Rúna benti á að gott væri að liðka hestinn aðeins við hendi eftir að hann kemur út af kerru, en ekki setja hann beint inn í hús. Það sem kom mér mest á óvart hjá Rúnu var hvað hún lagði mikla áherslu á sömu rútínuna, jafnvel gangskiptingar og gangtegundir eru fyrirfram ákveðnar alltaf á sömu stöðum reiðleiðarinnar sem hún fer. Hjá Jóa kom mér mest á óvart að hann leitist eftir að fá hestinn undir bita í þjálfun. Hann segir það hjálpa við að framkalla þessa glæsilegu reisingu og eftirgjöf sem hann er þekktur fyrir þegar hann er komin í keppni. 
 
Guðmar Þór Pétursson:
Mér fannst gaman að heyra hvað þau eru mikið fagfólk og hafa á mjög skemmtilegan hátt nýtt sér kosti klasskískar reiðmennsku til að bæta sig og sína hesta. Þau hafa greinilega mikinn skilning á atferli hestsins og bera hag hans fyrir brjósti. Það er enginn tilviljun að þau hafa náð þessum árangri.  Það var gaman fyrir mig, sem kem aðeins úr öðru umhverfi þar sem ég hef búið í Bandaríkjunum í mörg ár, að þetta er voðalega mikið allt byggt á sömu hugmyndafræðinni - alveg sama hvaða grein eða hestakyn það er. Góð hestamennska er góð hestamennska og ég held að góður hestamaður úr hvaða kyni eða grein sem er getur riðið nánast hvað hesti sem er. 
 
Það er greinilegt að þau eru bæði þræl klár í „natural horsemanship“ sem er náttúrlega ekkert annað en að nálgast hestinn út frá hans forsendum og skilja hvernig hann lærir sem best til að fá hann til að afkasta sem mest, en ekki bara gera sem minnst eins og sumir virðast halda. Það er líka gaman að sjá hvað þau halda í Íslendinginn í sér sem er eitthvað sem við megum ekki gleyma, án þess að vera lokuð á framfarir og breytingar. Þetta getur stundum verið vandfarinn millivegur.  
 
Karen Líndal Marteinsdóttir:
Það sem mér fannst markverðast og er líka algerlega sammála með er að hestar séu mjúkir, næmir og spennulausir í þjálfuninni. Þetta er grundvöllurinn fyrir því að hægt sé að byggja hestinn rétt upp svo hægt sé að sýna afköst með góðu móti þegar að á reynir. Ef hesturinn er mjúkur, laus við spennu og í jafnvægi eru líka mun minni líkur á ágripum eða særindum. 
 
Mér fannst áhugavert hvað Rúna notar hringteyminguna mikið í þjálfuninni hjá sér. Það örugglega eitthvað sem að maður mætti æfa sig meira í og er örugglega mjög góð viðbót við almenna þjálfun. Það er gott fyrir hestinn að þurfa ekki að bera knapann alltaf á bakinu og það er líka gaman að geta horft á hestinn og  hvernig hann er að beita sér.