mánudagur, 14. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þjóðverjar sigruðu fyrsta alþjóðlega mótið

31. júlí 2013 kl. 08:36

Jóhann Skúlason og Hvinur frá Holtsmúla á HM2005 í Svíþjóð. Jóhann hampaði tölthorninu það árið, í þriðja sinn.

Saga heimsleika íslenska hestins er rakin í nýjasta tölublaði Eiðfaxa sem kom út í gær.

Heimsmeistaramótið sem haldið verður í Berlín 4-11 ágúst er 22.í röðinni.

Mótin voru nefnd Evrópumót til ársins 1989 en var breytt í heimsmeistaramót árið 1991 þegar mótið var haldið í Svíþjóð.

Þá höfðu keppendur úr Vesturálfu, auk Breta, slegist í hóp keppenda og ekki lengur stætt á að einskorða heitið við Evrópu. Umgjörð mótanna hefur breyst mikið í tímans rás og keppnisreglur hafa farið í gegnum smásmugulega naflaskoðun, fram og til baka.

En heimsmeistaramótin eru fyrst og fremst vettvangur samskipta, samanburðar og uppörvunar fyrir eigendur íslenskra hrossa vítt og breitt um heiminn. Þau eru á einnig eitt helsta markaðstæki þeirra sem selja vöru og þjónustu á þessu sviði.

Að komast í landslið getur þýtt kaflaskifti fyrir knapa sem á annað borð vill komast í tengsl við markaðinn, t.d. varðandi reiðkennslu eða sölu á hestum. Heimsmeistaramótin eru í þeim skilningi líka mjög mikilvæg fyrir íslenska ferðaþjónustu og landbúnað.

Fyrsta alþjóðlega mótið fyrir íslenska hesta var haldið í Þýskalandi árið 1970

Fyrsta Evrópumótið fyrir íslenska hesta var haldið 1970 á Aegidienberg í Þýskalandi, búgarði Walters Feldmanns eldri.

Hann kostaði einnig mótið og sá um framkvæmd þess, vegna þess að FEIF, Evrópusamband Íslandshestaeigenda sem stofnað hafði verið árið áður, lagði ekki í þá áhættu. Mótið tókst vel og aðsókn var góð miðað við efni og ástæður, á þriðja þúsund eftir því sem Feldmann sjálfur sagði.

Sex þjóðir tóku þátt í mótinu: Íslendingar, Þjóðverjar, Svisslendingar, Danir, Austurríkismenn og Hollendingar. Keppt var í stigakeppni milli þjóða og urður Þjóðverjar hlutskarpastir með 1481,5 stig, þá Íslendingar með 906 stig og þriðju Danir með 869,8 stig. 

Saga heimsleika íslenska hestins er rakin ítarlega í nýjasta tölublaði Eiðfaxa, sem áskrifendur fengu í hendur í gær.  Þar er einnig að finna öll úrslit frá heimsleikunum.

Textinn hér að framan var upphaflega skrifaður af Jens Einarssyni í Eiðfaxa ,6. tölublaði 2005. Tímasetningar hafa verið uppfærðar.