þriðjudagur, 22. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þjóðleið hestamanna rofinn

17. september 2019 kl. 10:48

Flugvallarréttin

Vegna upsetningar á aðflugsbúnaði fyrir millilandaflug á Akureyri verður að rjúfa þjóðleið hestamanna.

Það er ljóst að mikil óánægja ríkir hjá hestamönnum norðan heiða þar sem þjóðleið hestamanna yfir Eyjafjarðará verður rofin vegna uppsetningu á ILS aðflugsbúnaði. Komist var að samkomulagi um að færa þjóðleiðina til, svo hægt væri að komast ferða sinna en á því hefur orðið að sögn hestamannafélagsin Léttis, trúnaðarbrestur

Eftirfarandi er fréttatilkynning frá Hestamanafélaginu Létti.

Staðan vegna reiðleiðar austur yfir Eyjafjarðará.

Eins og öllum hestamönnum er kunnugt kom upp umræða í upphafi síðasta árs að vegna uppsetningar aðflugsbúnaðar svokallaður ILS búnaður við Akureyrarflugvöll sem er nauðsynlegur til að efla millilandaflug, þá þurfti að loka núverandi reiðvegi að og á vestustu brú Eyjafjarðarár sem lendir inn á öryggissvæði flugvallarins og leggja þess í stað nýjann reiðveg suðaustan við flugvöllinn og byggja nýja brú yfir vestustu kvísl Eyjafjarðarár og leggja nýjan reiðveg á Stórhólmann norður á miðbrú. Einnig að færa núverandi „flugvallarrétt „ og aðhald sem lendir sömuleiðis innan svæðis vallarins.


Við hestamenn vorum upplýstir um þetta í febrúar 2018 sem og skipulaginu breytt sem við samþykktum sem gerir ráð fyrir breyttri legu reiðleiðar og á nýja reið og göngubrú yfir vestustu kvísl Eyjafjarðarár og allar götur síðan þá höfum við forsvarsmenn Léttis verið meira og minna í samtölum við bæjaryfirvöld sem og hönnuði um nýja reiðleið, nýtt stæði fyrir rétt og nýja brú. Við Léttismenn höfum í öllum okkar samtölum við bæjaryfirvöld sem og hönnuði látið það koma skýrt fram að ekki væri verjandi að loka núverandi reiðleið fyrr en ný leið væri komin. Um þetta hefur engum mátt dyljast allt ferlið sem og innan bæjarins og öllum mátti vera ljóst að ekki væri hægt að loka reiðleiðinni nema önnur fær kæmi í staðinn. Við höfum átt í samtölum við Isavía og höfum fullan skilning á þeirra vilja til að efla millilandaflug og þar deilum við skoðun okkar algjörlega með þeim. Samstarf okkar við Isavía hefur verið eins og best er á kosið hvað þetta allt varðar.


Í vor var það rætt að mögulega þyrfti að loka reiðleiðinni í apríl á þessu ári vegna uppsetninga nýja ILS aðflugsbúnaðarins en því mótmæltum við hestamenn enda á háannatíma hestamanna og hestaferða. Var á okkur hlustað og ákveðið að loka reiðleiðinni nú í byrjum september og það samþykktum við í þeirri bjargföstu trú okkar að ný brú ásamt reiðleið, yrði orðin að veruleika ekki síðar en í janúarlok á árinu 2020. Þessi framkvæmdatími, september til og með janúar væri ekki að trufla starfsemi okkar hestamanna og því ákváðum við hestamenn að rífa „flugvallarréttina nú í byjun september og nýta það efni sem hægt væri í að setja upp nýja rétt sunnan við fyrirhugaðan reiðveg að nýrri brú.
Eins og að ofan greinir höfum við Léttismenn verið með í ráðum við hönnum nýrrar reiðbrúar á Eyjafjarðará og nú í byrjum september var hönnum glæsilegrar reið og göngubrúar lokið ásamt legu nýs reiðvegar og staðsetning nýrrar réttar og ekkert því til fyrirstöðu að fara með verkið í útboð að hálfu Akureyrarbæjar.
Þessi lokafundur hönnunnar var haldinn 5. september s.l. Sama dag var reiðleiðinni austur yfir Eyjafjarðarðará formlega lokað.
Daginn eftir, þann 6. september, voru formaður og framkvæmdastjóri Léttis kallaðir á fund bæjaryfirvalda á Akureyri þar sem þeim var tilkynnt að Akureyrarbær gæti ekki fjármagnað né byggt nýja brú á Eyjafjarðará eins og allar áætlanir höfðu þó gert ráð fyrir. Framkvæmdin væri ekki verjanleg vegna annarra verkefna bæjarins að mati fulltrúa meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar.


Þetta var þvílíkt kjaftshögg og algjör trúnaðarbrestur blasir við. þetta var algjört reiðarslag fyrir okkur sem í þessu viðræðum höfum staðið í góðri trú, við áttum ekki eitt einasta orð.
Verði þessi niðurstaða að veruleika eru hestamenn hér í bæ lokaðir inni í suður við Brunná og komast ekki til suðurs fram Eyjafjörðinn, né til austurs yfir í þingeyjarsýslu. Einnig er hér um að ræða þjóðleið hestamanna ekki bara Akureyringa, heldur hestamanna almennt á milli landshluta.


Er hér um mjög grófa aðför að okkur hestamönnum að ræða svo ekki sé nú talað um algjöran trúnaðarbrest milli okkar og bæjarins sem og niðurstaða sem við hestamenn munum ekki undir neinum kringumstæðum una.
Eina færa reiðleiðin í dag fyrir okkur hestamenn á Akureyri til austurs og eða fram fjörðinn er að fara á þjóðveg númer 1. yfir Leirubrú innan um bílaumferð sem er bæði mjög þung og hröð.(samkvæmt talningu vegagerðar ca. 3000. bílar á sólarhring) og ef ekki verður komin önnur leið þegar hestamenn fara að hugsa sér til hreifins í upphafi næsta árs verður Drottningarbraut, Leiruvegur og Leirubrú ásamt Eyjafjarðarbraut eystri reiðleið okkar hestamanna. Þessi staða blasið því miður við.
Við höfum síðustu daga reynt að ná samtölum við þingmenn Norðausturskjördæmis og kallað eftir aðstoð frá þeim, en því miður er greinilega ekki mikil áhugi né skilningur þingmannanna okkar að hjálpa okkur í þessu máli. Við vildum fá að hitta þinmannahópinn allan strax til að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og gera mönnum ljóst hvaða afleiðingar það hefur verði ekkert að gert. Okkur er boðið að hitta þingamannahópinn eftir tæpan mánuð hér í kjördæmaviku, en að okkar mati verður að koma lausn nú þegar svo möguleiki verði á að nú reiðleið verði opnuð í upphafi næsta árs, um annað er ekki að semja. Allt sem þarf er vilji og skilningur yfirvalda á að þessi staða geti ekki gengið.


Við forsvarsmenn Léttis höfum nú síðustu daga verið að tala óformlega við bæjaryfirvöld en ekkert er í hendi enn sem komið er, því miður og tíminn líður dag frá degi. Því miður er útlitið ekki bjart.

Ágætu Léttisfélagar.
Svona er staðan núna.
En ljóst má vera að þetta mál sem er að okkar mati eitt það allra stærsta sem stjórn Léttis fyrr og síð hefur fengið í fangið, mun verða fyrirferðamikið í starfi stjórnarinnar þangað til viðunandi lausn finnst.

Hestamannafélagið Léttir.
Reiðveganefnd Léttis.