mánudagur, 16. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þjálfar, sýnir, keppir og ferðast – Viðtal við Karítas Ármann

1. desember 2011 kl. 12:23

Þjálfar, sýnir, keppir og ferðast – Viðtal við Karítas Ármann

Karítas Ármann er 13 ára hestastelpa í hestamannafélaginu Loga í Biskupstungum. Hún hefur verið í hestunum síðan hún man eftir sér og byrjaði afar ung að fara á hestbak, að keppa og fara í hestaferðir. Hún stundar nú hestamennsku á fullum krafti með fjölskyldun sinni í Friðheimum og er orðin ansi vön því að sýna hesta fyrir framan fullt af fólki því á sumrin kynnir hún sögu hestsins og gangtegundir á sýningunni „Stefnumót við Íslenska hestinn“ sem 5000 ferðmenn sáu í sumar. Á uppskeruhátíð æskulýðsnefndar Loga hlaut Karítas farandgripinn Feyki en hann fær hestamaður sem sýnir framfari á sviði hestamennskunar og er öðrum góð fyrirmynd.

Karítas er dugnaðarforkur eins og Eiðfaxi komst að þegar hann spjallaði við hana:

- Hvenær og hvernig byrjaðir þú að stunda hestamennsku?
Ég er nú fædd og uppalin með hestum svo ég byrjaði mjög ung að fara á hestbak og hef haft áhuga á hestum alveg síðan ég man eftir mér. Ég byrjaði að stunda hestamennsku eitthvað í kringum þriggja til fjögurra ára og reið ég fyrstu hestaferðina mína fjörgurra ára gömul.

-Hvað finnst þér skemmtilegast við hestamennskuna?
Það sem er svo frábært við hestana er hvað þeir geta verið með svo mismunandi persónleikar, verið svo ólíkir hvor öðrum. Maður getur tengst þeim svo sterkum böndum og þeir geta jafnvel orðið besti vinur manns. Skemmtilegast við hestamennskuna er að keppa og þegar við förum í hestaferðir með vinum og fjölskyldu.

-Hvenær kepptir þú í fyrsta sinn?
 Fyrsta keppnin mín var Æskulýðsmót á Skógarhólum. Þá keppti ég í 3. flokki og lenti í 1. sæti. Þessi keppni var árið 2003 þegar ég var 5 ára.

-Afhverju er gaman að keppa?
Það sem er svona gaman við að keppa er að vinna með hestinum, sýna fólki hvað maður sjálfur og hesturinn geta orðið flott saman. Það sem er líka gaman er að sýna fólki hvað maður hefur lagt mikla vinnu í að þjálfa hestinn og reyna eins og maður getur að ná sem bestum árangri.

-Hvað ber að hafa í huga til að ná góðum árangri í hestamennskunni?
Framförunum hef ég náð með því að æfa mig, með tíma og með því að leggja mjög hart að mér. Pabbi hefur einnig hjálpað mér mikið með að segja mér til og fleira. Ef þú vilt ná góðum árangri þá verðuru að vinna fyrir honum og aldrei gefast upp.

-Áttu þér eftirlætis hest?
Uppáhaldsshesturinn minn er Bríet frá Friðheimum. Bríet er mjög sérstakur hestur að mínu mati. Hún og ég höfum náð mjög góðum árangri saman og það hefur verið mjög skemmtilegt. Hún er mjög skapstór en með mjög skemmtilegann persónuleika. Hún er algjör prímadonna og æðislegur töltari. Knútur, pabbi minn á hana en ég hef þjálfað hana síðan síðasta vetur. Áður þjálfaði Dóróthea systir mín hana mikið og pabbi líka. En ef ég er að fara að keppa á henni þá þjálfa ég hana fyrir mótin.

-Hvað finnst þér skemmtilegast við að sýna fyrir framan ferðamenn?
Að sýna í Friðheimum er svolítið öðruvísi heldur en að keppa vegna þess það er orðinn svo eðlilegur hlutur fyrir okkur. Á sýningum ertu ekki að keppa við neinn og enginn er að dæma þig eins og í keppni. Við sýnum nánast á hverjum degi á sumrin, jafnvel oftar. Að sýna er mjög skemmtilegt sérstaklega þegar fólk er hresst og finnst gaman að horfa. Svo er náttúrulega líka mjög gaman að tala við fólkið inní hesthúsinu og svara spurningum þeirra, líka að sjá hvað fólkinu finnst íslenski hesturinn vera frábært og sérstakt dýr, sem hann er.

-Áttu þér fyrirmyndir í hestamennskunni?
Já, aðalega pabbi minn en  Dóróthea systir mín er líka smá fyrirmyndin mín. Þau hafa náð mjög góðum árangri bæði og hafa hjálpað mér mikið t.d. við að gefa mér ráð og segja mér til, og þá sérstaklega pabbi.

-Hvert er eftirminnilegasta atvik úr hestamennskunni?
Það myndi pottþétt vera Landsmót 2011. Ég stefni á að fara á Landsmót á næsta ári en þá verð ég náttúrulega komin í unglingaflokk sem er mikið harðari keppni heldur en barnaflokkur, en ég mun stefna á það.

-Hvaða hest hefðir þú viljað taka með heim af Landsmótinu?
Ég hefði viljað taka með mér Dívu frá Álfhólum vegna þess að hún er æðislegur töltari og er með mjög góða dóma.

-Flottasti töltarinn:  Hnokki frá Felskoti.
-Flottasti klárhesturinn:  Eldjárn frá Tjaldhólum.
-Flottasti alhliðahesturinn:Spuni frá Vesturkoti.

Eiðfaxi þakkar Karítas kærlega fyrir viðtalið og óskar henni góðs gengis í vetur.