þriðjudagur, 12. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Þið eigið ekki eftir að trúa þessu"

20. janúar 2014 kl. 15:51

Nótt komin í tamningu og gegnur vel Mynd: Syðri-Úlfsstaðir

Ótrúleg saga um merkilegan fund

Á heimasíðu Syðri-Úlfsstaða birtist merkileg frétt um hryss sem var búin að vera týnd í nokkur ár og talin vera komin til feðra sinna en fannst nú fyrir stuttu í hólfi hjá nágrönnunum. Eiðfaxi fékk leyfi til að birta söguna og birtist hún hér fyrir neðan

"Í febrúar í fyrra hringir nágranni okkar og spyr hvort okkur vanti brúnt hross þar sem eitt slíkt hafði nýverið bæst í hópinn hjá honum.

Við könnuðumst ekki við að vanta eitt slíkt. Nokkrum mánuðum seinna hringir nágranninn aftur og biður okkur að hjálpa sér að ná þessu ókunnuga hrossi úr hópnum því hann ætlaði að fara setja graðhest í merarnar sínar.

Við grípum örmerkjaskannann með okkur til að athuga hvort hrossið væri merkt til að geta komið því í réttar hendur.

Viti menn það heyrðist bíp, hrossið merkt og númer kemur á skjáinn. Sigga brunar heim að fletta því upp í Worldfeng. Á meðan Rikki og Bryndís bíða eftir niðurstöðum skoða þau hrossið nánar og hafði Bryndís orð á því að þetta hross væri með afar kunnulegt andlitsfall. Þá hringir Sigga og segir „Þið eigið ekki eftir að trúa þessu... ég er búin að slá númerið inn þrisvar og það kemur alltaf að þetta sé Nótt frá Syðri Úlfsstöðum, afdrif: fórst.“ Þarna var heim komin Þorsta- og Viðjudóttir.

Þetta var hryssa sem hafði tapast héðan úr haganum tveggja vetra gömul og talin af fyrir fimm árum. Hvar hún hefur verið og í hvaða verkefnum er okkur hulin ráðgáta. En nú er trítlan komin undir hnakk og að byrja að ganga og fer prýðis vel af stað."

http://sydriulfsstadir.com/is/frettir/35-tynda-nott