fimmtudagur, 14. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þetta verður árið mitt

27. desember 2016 kl. 18:00

Hulda Gústafsdóttir og Birkir frá Vatni urðu Íslandsmeistarar í fimmgangi árið 2016.

Viðtal við íþróttaknapa ársins, Huldu Gústafsdóttur.

Íþróttaknapi ársins Hulda Gústafsdóttir verður í viðtali í nýjasta tölublaði Eiðfaxa. Hulda er einn af okkar fremstu reiðmönnum og reiðkennurum en hún rekur tamningastöð á Árbakka ásamt manni sínum Hinriki Bragasyni. Ásamt því rekur hún útflutningsfyrirtækið Hestvit ehf.

„Árið í ár er einn af hápunktunum á mínum ferli. Ég hugsa að þetta sé eitt heilsteyptasta árið mitt til þessa. Mér fannst ótrúlega gaman að ég skildi fá þessa útnefningu núna en ég varð 50 ára á þessu ári og fannst gaman að það sé hægt, manneskja á mínum aldri, farin að síga á seinni hlutanna, að vera ennþá í toppbaráttunni. Mér finnst það frábært fyrir sportið og vona að það sé hvatning fyrir aðra að hætta ekki. Það er fullt af fólki á mínum aldri sem var í keppnismennsku áður en er hætt núna. Ég vona að þetta sá hvatning fyrir það fólk að halda áfram og einnig fyrir yngra fólkið. Það er alltaf hægt að bæta sig,“ segir Hulda. Og auðvitað konur, við erum alltof of fáar þegar á toppinn er komið. “Mig langar að bæta einu við þetta. Ég átti rosalega gott ár í fyrra, 2015, Reykjavíkurmeistari, með þrjá sjö vetra hesta í A-úrslitum á Íslandsmóti og gekk frábæralega í Meistaradeildinni en ég var ekki einu sinni tilnefnd, vantaði fleiri sigra. Ég hugsaði „Oh, hvað þarf maður að eiginlega að gera til þess að verða tilnefndur?“ og líka „Vá, þetta var örugglega síðasta góða árið mitt og ég á aldrei eftir að geta gert þetta aftur.“ Síðan vinn ég í upphafi árs fjórganginn í Meistaradeildinni. Þá kemur Telma Tómasson vinkona mín til mín og segir: „Hulda, taktu eftir; þetta verður árið þitt!“ Einhvern veginn varð þessi mantra eftir í kollinum á mér. „Þetta verður árið mitt“ og held ég að það gæti alveg hafa gert gæfumuninn. Stundum þarf maður að hafa eitthvað svona á bak við eyrað, hafa trú á því sjálfur að geta gert vel,“ segir Hulda. Og þá gengur það einhvern veginn!"

Blaðið berst áskrifendum um miðja þessa viku en nálgast má rafræna útgáfu þess hér. Hægt er að gerast áskrifandi í síma 511 6622 eða með því að senda tölvupóst á eidfaxi@eidfaxi.is.