fimmtudagur, 17. október 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Útflutt úrvalshross

13. janúar 2015 kl. 13:45

Sprengja frá Ketilsstöðum, knapi Brynja Amble Gísladóttir.

Fjölmargir gammagæðingar fóru utan árið 2014. - Myndir

Alls voru 1.269 hross flutt frá landi á síðasta ári, þar af 82 fyrstu verðlauna kynbótahross til tuttugu landa um allan heim.

Fjölmörg frambærileg keppnishross voru á meðal þeirra, Íslandsmeistarar, Landsmótsmeistarar og gripir sem eiga eflaust eftir að láta til sín taka í framtíðinni og setja sín spor í ræktun íslenskra hesta erlendis.

Verður spennandi að sjá þau spreyta sig á keppnis- og kynbótabrautum erlendis - kannski munu einhver þeirra koma fram á Heimsmeistaramótinu í Herning?

Hér má finna dæmi um nokkur úrvalshross sem yfirgáfu landið á árinu 2014:

Hausti frá Kagaðarhóli er hæst dæmda útflutta hross ársins 2014. Hann hlaut einkunnina 8,53 í aðaleinkunn á sl. Landsmóti og var fluttur til Þýskalands undir lok ársins.

Erla frá Halakoti er hæst dæmda útflutta hryssa ársins 2014. Hún var hæst dæmda hryssa í sínum árgangi árið 2012 og 2013. Erla fór til eiganda sinna í Noregi.

Máttur frá Leirubakka fór til Sviss snemma árs og hefur nokkrum sinnum komið fram í keppni þar ytra.

Stóðhesturinn flugvakri Hringur frá Skarði er nú staddur í Svíþjóð.

Belginn Frans Goetschalckx féll fyrir Asa frá Lundum og flutti hann út til sín. Asi kom m.a. fram á heimsbikarmótinu innanhús, World Toelt.

Þóroddssonurinn Hvatur frá Dallandi hefur fundið ný heimkynni í Austurríki.

Hæst dæmdi Álfssonurinn, Glymur frá Leiðólfsstöðum, var seldur til Austurríkis í lok ársins.

Sjarmatröllið Hreggviður frá Auðsholtshjáleigu fór til Noregs í nóvember, þar sem hann mun eiga framtíðina fyrir sér sem keppnishestur.

Fálmar frá Ketilsstöðum fór einnig til Noregs. Hann vakti verðskuldaða athygli í Meistaradeildinni í fyrra.

Maríus frá Húsavík, undan Kappa frá Kommu, er frambærilegur stóðhestur sem fór til Noregs.

Lótus frá Vatnsleysu fór til Svíþjóðar, og eflaust framtíðina fyrir sér á keppnisbrautinni.

Prestur frá Hæli vakti verðskuldaða athygli á keppnisbrautinni undir stjórn Kára Steinssonar og síðar Viðars Ingólfssonar. Hann er nú komin í hendur Matildu Rolf í Svíþjóð, sem einnig á Tuma frá Stóra-Hofi.

Piltur er annar stóðhestur úr ræktun kennd við Hæli, sem nú er kominn til Þýskalands.

Villi frá Gillastöðum er ungur og hátt dæmdur stóðhestur sem er til alls vís. Hann var seldur til Svíþjóðar.

Dynfari frá Steinnesi er vekringur mikill sem mun eflaust láta til sín taka á nýjum heimaslóðum í Noregi.

Eldur frá Köldukinn yfirgaf Frón í byrjun árs 2014 og hefur nú komið nokkrum sinnum fram á meginlandinu undir stjórn nýs eiganda, Christinu Dittrich í Þýskalandi.

Sólon frá Vesturkoti er annar frambærilegur keppnishestur sem seldur var til Noregs. Hann var m.a. í B-úrslitum B-flokks á Landsmóti.

Þá fór Landsmótsmeistarinn Ás frá Skriðulandi á vit nýrra ævintýra í Noregi.

Önnur stjarna frá ungmennaflokki á Landsmóti, Sprengja frá Ketilsstöðum var seld til Þýskalands.

Tónn frá Melkoti keppti fyrir hönd Íslands á Norðurlandamótinu, en hann er m.a. fyrrverandi Landsmótsmeistari í ungmennaflokki. Hann er nú í Svíþjóð og er keppnishestur eiganda síns, Alexöndru Montan.

Þáttur frá Fellskoti undan heimsmeistara Hnokka, fór til Svíþjóðar í apríl og lét til sín taka á Norðurlandamótinu.

Stórval frá Lundi hefur átt góðu gengi að fagna á keppnisbrautinni. Hann fór til Sviss síðsumars.

Indía frá Álfhólum fór til Austurríkis eftir góða frammistöðu í barnaflokki á Landsmóti. Þar var hún í úrslitum undir stjórn Selmu Maríu Jónsdóttur.