sunnudagur, 22. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Þarna kemur Hinni á Sigur“

16. desember 2011 kl. 11:23

Ekki er óalgengt að fólk segi: „Þarna kemur Hinni á Sigur,“ eða „Hann er undan Sigur“.

Aðeins nefnifall í WorldFeng

Þessa dagana er Kristín Halldórsdóttir, búsett í Þýskalandi, að lesa inn hesta- og mannanöfn í WorldFeng. Mjög gott framtak með hliðsjón af alþjóðlegri notkun bankans og alþjóðavæðingu íslenska hestsins, og þar með íslenkskra nafna.

Nöfnin eru þó aðeins lesin í nefnifalli. Ákjósanlegt hefði verið að nota lagið og lesa þau inn í öllum föllum. Fallbeyging hestanafna meðal hestamanna er á smábarnastigi. „Þarna kemur Hinni á Sigur“ (Sigri). Eða: „Hann er undan Hróð“ (Hróðri). Eða: „Þetta er Hróðsafkvæmi“ (Hróðurs).

Staðreyndin er sú að íslenskir hestamenn eru farnir að móta málfar sitt í átt að vankunnáttu útlendra hestamanna, í stað þess að leiðbeina þeim um rétta notkun nafna. Flest hestanöfn er notuð í nefnifalli, eða jafnvel "nýföllum" sem verða til í miðri fáfræðinni.

Hér með er skorað á WorldFeng að bæta við föllum í innlestri nafna.