miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þakkar unnustunni góðan árangur

31. mars 2011 kl. 17:14

Þakkar unnustunni góðan árangur

Tamningamaðurinn og reiðkennarinn Eyjólfur Þorsteinsson hefur sigrað hvert mótið á fætur öðru norðan heiða í vetur. Sigurganga hans hefur vakið mikla athygli, hefur hann mætt til leiks á ólíkum gæðingum og sýnt það og sannað að hann er einn af sterkustu reiðmönnum landsins.

Óstöðvandi sigurganga

Eyjólfur sigraði ísmótið Stjörnutölt á Akureyri á Klerki frá Bjarnanesi. Þá sigraði hann annað stórt töltmót, Opna Bautamótið, á Kommu frá Bjarnanesi. Síðustu helgi varð hann í öðru sæti á ístöltmóti í Noregi á Losta frá Strandarhjáleigu þar sem hann skaut heimsmeisturunum Jóhanni Skúlasyni og Stian Pedersen ref fyrir rass.
Í síðustu viku sigraði hann báðar lokakeppnir KEA-mótaraðarinnar og varð þannig samanlagður sigurvegari mótaraðarinnar. Skeiðkeppnina vann hann á Spyrnu frá Vindási, slaktaumatöltið á Ögra frá Baldurshaga. Fjórgangskeppni mótaraðarinnar sigraði hann á Ósk frá Þinganesi og varð í 5. sæti í tölti á Hlekk frá Þinganesi eftir að hafa verið efstur eftir forkeppni.
Í gær bætti Eyjólfur enn einni fjöðrinni í hattinn, með því að hampa KS-deildartitlinum fyrir hæsta samanlagða stigafjölda í þeim fimm mótum sem haldin voru undir merkjum KS-deildar. Þar sigraði hann fjórgangskeppnina ásamt því að vera þriðji í töltkeppninni á Klerki frá Bjarnanesi. Hann var í öðru sæti fimmgangsmótsins á Ögra frá Bjarnanesi, í öðru sæti í smalakeppninni á Bróður frá Stekkjardal og í 9. sæti í skeiði á Spyrnu frá Vindási.

Góður hestakostur og stuðningsnetið mikilvægt

Miðað við þessa sigurgöngu Eyjólfs má það þykja ótrúlegt að auk þess að þjálfa ótal hross starfar hann sem kennari við Háskólann á Hólum. Eiðfaxi sló á þráðinn til Eyjólfs og spurði hann fyrst að hinu augljósa: Hvernig fer hann að þessu?
„Góður árangur byggist að sjálfsögðu á góðum hestakosti og að vera samviskusemi við þjálfun. Ég hef verið ofsalega heppinn og haft aðgang að góðum hestum frá Vindási, Bjarnanesi og Þingnesi.  Þá á ég gott stuðningsnet og hef aðgang að mörgum kennurum á Hólum. Ég lít mikið upp til Vignis Jónassonar sem hefur verið minn helsti ráðgjafi auk þess sem Mette Mannseth hefur verið mér innan handar og það er mér mikils virði að geta leitað til þeirra ef mig vantar ráðleggingar. Svo er ég nú svo heppin hvað Vigdís, unnusta mín, styður vel við bakið á mér. Hún þjálfar með mér hestanna og á stóran þátt í árangrinum. Ég hefði aldrei náð svona langt í vetur án hennar aðstoðar og stuðnings,“ segir Eyjólfur.

Ósk á HM – Klerkur á LM

Hann segir mótaraðir á borð við KEA og KS-deildina hafa góð áhrif á tamningamenn og keppnisknapa enda haldi þær knöpum á tánum við að þjálfa góð keppnishross. „Svo er ofsalega gott að geta metið hvort maður sé á réttri leið yfir veturinn, áður sá maður ekki stöðuna fyrr en í maí,“ segir Eyjólfur sem stefnir bæði á Landsmót og í HM-úrtöku. „Klerkur er minn aðalhestur og ég ætla með hann í B-flokk gæðinga á Landsmót. Einnig stefni ég á Heimsmeistaramót í fjórgang og slaktaumatölti með Ósk frá Þinganesi, en hún hefur nú þegar verið seld til Sviss,“ segir Eyjólfur sem hefur ýmislegt spennandi á nálunum.
Eyjólfur og Klerkur mun mæta til Reykjavíkur um helgina til að taka þátt í ísmótinu „Þeir allra sterkustu“.  Stefnir hann á að taka sunnlendinga í bakaríið? „Maður reynir að sjálfsögðu. Ég mun sína mitt rétta andlit.“